143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[21:54]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirgripsmikla ræðu. Vegna þess hvað stuttur tími er til andsvara ætla ég að vinda mér strax í það sem ég vil ræða við hv. þingmann. Það lýtur að því atriði sem hann kom inn á snemma í ræðu sinni um jafnræði og stjórnarskrána og hvort ýmis ákvæði í frumvarpinu gætu farið í bága við stjórnarskrána og að menn létu hugsanlega á það reyna.

Annars vegar er dæmi sem ég tók í andsvari við hv. þm. Frosta Sigurjónsson hér áðan. Gert er ráð fyrir því að þeir sem uppfylla þau skilyrði sem hér eru sett geti sótt um, þeir fái leiðréttingarupphæð útreiknaða og það er meira að segja gert ráð fyrir því í greinargerð með 12. gr. frumvarpsins að sá hluti sérstaks persónuafsláttar sem kann að vera umfram reiknaða skatta komi til útborgunar. Það gildir þó ekki í því tilviki sem ég gat um áðan, um þá sem flutt hafa úr landi og eru í vinnu annars staðar og njóta þess vegna ekki persónuafsláttar. (Forseti hringir.) Það er annað dæmi. Hitt varðar þá sem eru með lán hjá húsnæðissamvinnufélögum, ég kem betur að því í seinna andsvari.