143. löggjafarþing — 115. fundur,  15. maí 2014.

frestun verkfallsaðgerða Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair.

600. mál
[12:44]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki sannfærður um að löggjafinn eigi að grípa mikið inn í kjaraviðræður. Það á að gera í algjörum undantekningartilvikum eins og þeim sem eru fyrir hendi í dag.

Ég fellst á að það er mikilvægt að ræða hvort við eigum að skýra eða skerpa línurnar en ég er ekki alveg sannfærður um, og ítreka það, að löggjafinn eigi að skipta sér mikið af. (BirgJ: … núna.)

Hv. þingmaður minnist á lögregluna og mig langar líka að minnast á tollverði. Í samningum þeirra aðila segir einfaldlega að náist samningar ekki, ef ég man rétt, miðað við þær upplýsingar sem ég fékk á fundinum, fari málið beint í gerðardóm. Aðilar hafa að sjálfsögðu samningsréttinn. Ef ekki nást samningar (Forseti hringir.) fer málið í gerðardóm og mér skilst að þannig sé staðan með tollverði.