143. löggjafarþing — 115. fundur,  15. maí 2014.

frestun verkfallsaðgerða Félags íslenskra atvinnuflugmanna gegn Icelandair.

600. mál
[13:09]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var ekki verkfall á Herjólfi, það var yfirvinnubann sem var verið að stöðva með lögum, yfirvinnubann sem menn stöðvuðu. (Gripið fram í.) Það er það sem menn gerðu.

Málflutningur hv. þingmanns hér er með þeim hætti að maður hefur ástæðu til að óttast viðhorfin gagnvart verkfallsréttinum. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um að ef flugfólk leggur niður störf hefur það gríðarleg áhrif. Ég held að við deilum ekkert um það. Við segjum það mjög skýrt.

Réttur launafólks til að sækja sér kjarabætur er líka gríðarlega mikilvægur. Þar er um að ræða mannréttindi og við þurfum þess vegna alltaf að vega og meta hverju sinni hvenær réttlætanlegt er að beita lagasetningu. Það sem ég er að segja hér er að mér finnst ríkisstjórnin gera þetta fullfjálglega í ljósi þess að aðrar vinnudeilur eru í gangi og aðrar kjaradeilur fram undan (Gripið fram í.) og önnur verkföll í gangi. [Kliður í þingsal.] Ég vil þess vegna segja það hér — hv. þingmaður er búinn að hafa hér ræðustólinn tvisvar til að spyrja mig, ég hlýt að mega fá að klára. (JónG: … svarar ekki spurningunni.) Það er einfaldlega þannig að það sem sagt var hér áðan af hv. þingmanni er að annað flugfólk, sem nú stendur í kjaradeilu, megi búast við hinu sama. Flugfreyjur, stór kvennastétt, standa líka í kjaradeilu og það mun hafa sömu áhrif ef þær leggja niður störf. Flugvirkjar eru líka í kjaradeilu. (JónG: Stór karlastétt.) Hvaða skilaboð er verið að senda þessum aðilum núna?

Það er þetta samhengi — ég er ekki að biðja hv. þingmann um að standa og setja upp boxhanskana og segja við mig: Ja, þú verður að rökstyðja þitt mál betur. Ég er að biðja þá um að segja mér (Forseti hringir.) hvernig þeir ætli að vinna sig út úr þessu samhengi sjálfir. Hvernig ætlar ríkisstjórnin að enda þessa vegferð sem hún hefur hafið? Það er bara það sem ég er að biðja um, virðulegi forseti. (JónG: Svaraðu spurningunum.)

Virðulegi forseti. Mér þætti rétt (Forseti hringir.) að í staðinn fyrir (Gripið fram í.) að vera hér að berja bjölluna á mig að hv. þm. Jón Gunnarsson …

(Forseti (SilG): Ræðutíma hv. þingmanns er lokið og ræðumaður hefur orðið í þingsal.)

Það hefði mátt segja það við hv. þingmann örlítið fyrr vegna þess að hann er afar órólegur hér. Ég verð að segja það, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) að hans orð hér í stólnum hjálpuðu ekki málstað ríkisstjórnarinnar mikið. Það verð ég bara að segja alveg eins og er.

(Forseti (SilG): Ræðutíma hv. þingmanns er löngu lokið. Ég bið hv. þingmenn um að virða ræðutíma.)