143. löggjafarþing — 116. fundur,  15. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[15:08]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir spurninguna. Í ljósi þess að við erum með verðtryggð lán olli þetta kannski enn meiri vandræðum en hitt sem hefði gerst ef einungis óverðtryggðir vextir hefðu snarhækkað. Ég hugsa að ég deili að einhverju leyti skoðunum með hv. þingmanni, ég er ekki hrifin af verðtryggingunni. Ég held að hún ýti undir verðbólgu þó að ég sé kannski á sama tíma þeirrar skoðunar að erfitt sé að afnema hana á meðan við erum með íslensku krónuna. En ég er að mörgu leyti sammála þeim sem hafa talað gegn verðtryggingunni. Ég veit ekki hvort rétt er að banna þessi 40 ára verðtryggðu lán, en ég held að það væri gott ef menn mundu reyna að minnka vægi þeirra. Ég held að óverðtryggðu lánin séu miklu betra hagstjórnartæki, vegna þess að þá fáum við vaxtahækkunina beint í andlitið, drögum saman seglin, og minnkum þar af leiðandi verðbólguna.