143. löggjafarþing — 116. fundur,  15. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[18:16]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það voru merkileg samtöl sem áttu sér stað hér og svolítið áhugaverð einföldun, en það góða við það er að hæstv. forsætisráðherra lét sig þó hafa það að mæta í þingsal og eiga við okkur orðastað og fyrir það hljótum við að vera þakklát. (Gripið fram í.) Þá er líka spurning hvort hann sé þá ekki kominn í grimmt málþóf ef umræður um þetta mál í þingsal er málþóf að hans mati. En veri hann velkominn og ég hlakka til að heyra ræðu hans hér á eftir því að það eru auðvitað fjölmargar spurningar sem við höfum um þetta mál. Mjög margt hefur komið fram og ég ætla ekki að lengja umræðuna með því að endurtaka það sem félagar mínir hafa sagt. Hv. þm. Oddný G. Harðardóttir fór ágætlega yfir áhrifin á ríkisfjármálin. Hv. þm. Árni Páll Árnason hefur gert ágætlega grein fyrir nefndaráliti okkar, þ.e. nefndaráliti 1. minni hluta, sem ég styð heils hugar, en það eru nokkur atriði sem mig langar að koma inn á.

Það er í fyrsta lagi að mér finnst ekki nægjanlega oft sagt að það sem við sjáum í þessu frumvarpi: 72 milljarðar í gegnum skattkerfið sem er ófjármagnað, takið eftir því; ófjármagnað, það byrjaði sem loforð Framsóknarflokksins um 300 milljarða sem áttu að koma frá ljótu kröfuhöfunum úti í heimi. Það átti ekki að leggja neitt á ríkissjóð. Þessar yfirlýsingar voru mjög skýrar í aðdraganda kosninga. Það sem við sjáum núna er hins vegar eitthvað allt annað. Menn ætla í alvörunni að sitja í þessum þingsal væntanlega á morgun og greiða atkvæði með algerlega óvissum áhrifum þessa frumvarps á ríkissjóð. Staðreyndin er sú að þetta er allt saman ófjármagnað enn þá.

Fram kom í máli hv. þm. Vigdís Hauksdóttur, formanns fjárlaganefndar, áðan að deilt væri um lögmæti skattlagningarinnar. Það er áhugavert að menn skuli geta staðið hér í ræðustól og sagt það og samt stutt svona stórt mál ef slík óvissa er uppi eins og fram kom í máli hv. þingmanns.

Þá vil ég líka nefna það hér að þessi óvissa kemur fram mjög víða í frumvarpinu sjálfu og kemur meira að segja kemur fram eftir vinnu nefndarinnar og þeim breytingartillögum sem lagðar eru fram við málið að þetta verður mun kostnaðarsamara en eingöngu þeir 72 milljarðar sem fara beint til heimilanna og síðan 8 milljarðar til viðbótar sem menn hafa gert ráð fyrir að fari í kostnað og verðbætur. Þetta verður mun hærri upphæð og áhrifin á ríkissjóð verða miklum mun meiri þegar síðan eru tekin saman áhrif beggja frumvarpanna, þ.e. líka áhrifin af séreignarsparnaðaraðgerðinni, þannig að áhrifin á ríkissjóð verða gríðarleg. Í báðum frumvörpunum segja menn án þess að hika í greinargerð — ég hef aldrei nokkurn tíma heyrt slíkt fyrr að menn leyfi sér bara að segja í greinargerð að t.d. áhrifin á Íbúðalánasjóð séu með öllu óljós, að menn viti ekki hver áhrifin verða. Og ætlum við bara að samþykkja það rétt sisvona? Við hljótum að þurfa að gera einhverja kröfu um almennilega greiningu á því. Eins og fram kom hjá hv. formanni nefndarinnar í gær gætu þetta í minnsta lagi orðið 5 milljarða áhrif og í mesta lagi 25 milljarða áhrif, um það bil. Það er bara gríðarlegur munur og að mati Íbúðalánasjóðs sjálfs eru menn nærri efri mörkunum.

Það er það sem mér finnst mikilvægt að draga fram vegna þess að síðan kemur líka þessi gríðarlega óvissa fram í umsögn fjármálaráðuneytisins. Ef drepið er niður í umsögninni á bls. 34 í sjálfu frumvarpinu kemur fram að ríkissjóður muni þurfa að mæta fjárþörf hjá Íbúðalánasjóði vegna hraðari uppgreiðslu lána á tímabilinu en að veruleg óvissa sé um fjárhæðir í því sambandi. Svo er farið yfir það. Útlán sjóðsins voru 55% af verðtryggðum skuldum heimilanna í lok árs 2009 og þar sem þau eru eflaust yfirleitt á 1. veðrétti má reikna með að innborganir á leiðréttingarhlutum lána muni að stórum hluta greiðast inn á útlán Íbúðalánasjóðs auk hluta af innborgunum á séreignarlífeyrissparnaði. Við það tapar sjóðurinn vaxtamun sem leiðir til lakari afkomu takist að ná sambærilegri ávöxtun á lausn B þar sem öll útgefin skuldabréf sjóðsins eru óuppgreiðanleg og verðtryggð. Mikil óvissa er um fjárhæðir og vaxtakjör í þessu sambandi. Upp á þetta skrifa menn bara sisvona og ætla að gera það.

Mér finnst þetta óþægilegt. Ég sat í ríkisstjórn sem þurfti að kljást við ríkisfjármálin og hæstv. forsætisráðherra virðist ekki hafa neina hugmynd um hvað var í gangi á síðasta kjörtímabili miðað við það hvernig hann talaði um í andsvari við hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur. Hér var 216 milljarða kr. mínus á ríkissjóði þegar sú ríkisstjórn tók við, 216 milljarðar eftir hrun. Það var verkefni síðasta kjörtímabils að stoppa í það gat og það hafa engin töfrabrögð frá núverandi ríkisstjórn lokað því gati endanlega á þessu ári. Núverandi ríkisstjórn fór eftir og fylgdi hluta af ríkisfjármálaáætlun fyrrverandi ríkisstjórnar.

Ég er þess vegna mjög treg til að skrifa upp á einhverja óútfyllta risatékka inn í framtíðina sem eru í svona mikilli óvissu þegar við erum nýkomin upp úr þessu stóra gati, rétt komin upp fyrir núllið og rétt komin á það stig að geta byrjað að reisa aftur við mikilvægustu grunnstoðir samfélags okkar sem eru kjör lífeyrisþega, velferðarkerfið, allt heilbrigðiskerfið, menntakerfið, við erum rétt komin á þann stað núna, fyrir utan það hversu mikið fer hér í vaxtagreiðslur hjá hinu opinbera. Gríðarlegir fjármunir fara í vexti á hverju einasta ári sem ég vil gjarnan fá að nota í eitthvað annað og þá ekki síst til að styrkja grunnstoðir samfélagsins. Bara vaxtagreiðslurnar gætu byggt landspítala fyrir okkur, svo ég setji það í eitthvert samhengi.

Virðulegi forseti. Þetta segi ég ekki vegna þess að ég ætli að vera með einhver leiðindi, eins og hæstv. forsætisráðherra kallar það ef maður gagnrýnir eitthvað. Það er verkefni okkar að spyrja slíkra spurninga. Fjármögnunin er ótrygg. Þessar óvissuupphæðir eru undir, líka gríðarleg óvissa um áhrifin á ríkisfjármálin, en samt ætla menn bara að samþykkja og taka sénsinn. En það að taka sénsinn getur líka verið gríðarlegur bjarnargreiði við þjóðina þótt hluti hennar muni vissulega njóta þessara aðgerða beint vegna húsnæðislána sinna. En það sem við erum að reyna að draga fram hér er að menn gefi sér tíma til að skoða það betur ef hugsanlega kemur í ljós að betur sé heima setið en af stað farið miðað við alla óvissuna sem hér liggur undir og hvort kostnaðurinn við þetta til lengri tíma verði hreinlega of mikill fyrir samfélagið allt.

Ég ætla ekki að gera lítið úr því að heimili eru hér í vandræðum. Ég hef sagt það oft og mun segja það aftur að ég tel að það sé mjög mikilvægt sem fráfarandi ríkisstjórn gerði til að mæta skuldugum heimilum, en reynt var að gera það eftir efnum hverju sinni, við gerðum það eftir efnum, við skrifuðum aldrei út neina óútfyllta tékka inn í óvissa framtíð, og síðan gerðum við samkomulag við fjármálastofnanirnar um að þær færu til dæmis 110%-leiðina o.s.frv. En ég skal vera fyrst til að viðurkenna að þá sátu til dæmis eftir þeir sem eru að miklu leyti til hjá Íbúðalánasjóði, þeir gátu ekki notað þá leið. Það er alveg ljóst að koma þarf frekar til móts við þann hóp.

Við sögðum það líka þá að koma þyrfti betur til móts við þann hóp sem keypti á versta tíma, það er algerlega ljóst og kemur vel fram í mjög góðu og skýru nefndaráliti sem hv. þm. Pétur H. Blöndal skilaði inn og flutti hér. Þar kemur fram samanburður á stöðu húsnæðisverðs og stöðu kaupenda eftir því hvenær þeir keyptu, miðað við þróun húsnæðisverðs. Það er mjög áhugaverð mynd í áliti hans sem sýnir það ágætlega hvaða hópar það eru sem mæta þarf og ég skal vera fyrst manna til að taka undir það.

Einnig er algerlega ljóst að menn þurfa að koma frekar til móts við þá sem eru með lánsveð, en það ætlar þessi ríkisstjórn ekki að gera nema í gegnum þessa almennu aðgerð, en þessi hópur þarf sérstakan stuðning. Ástæðan er sú að þetta eru yfirleitt þeir sem keyptu á versta tíma og sitja með mjög þung lán bæði á húsnæði sínu og hjá þriðja aðila. Fráfarandi ríkisstjórn var búin að ná samkomulagi við lífeyrissjóðina um að taka þátt í kostnaðinum við þá aðgerð og ég spyr: Hvers vegna ætlar þessi ríkisstjórn að afsala sér framlagi lífeyrissjóðanna sem þeir voru búnir að skuldbinda sig til, þ.e. að taka þátt í að mæta lánsveðshópnum? Af hverju afsala menn sér því? Ríkisstjórnin segir bara: Nei takk, skattkerfið okkar og ríkissjóður bera þann kostnað. Það er mér fullkomlega óskiljanlegt. Er það af því að fyrrverandi ríkisstjórn gerði þetta samkomulag? Er það þess vegna? Eru menn svo lummó að hugsa þannig? Eitthvað er það fyrst menn ýta slíku samkomulagi til hliðar og ákveða frekar að fjármagna hlutina sjálfir og ganga skemur.

Virðulegi forseti. Tíminn flýgur og ég ætla að reyna að hleypa fleirum að. Það eru nokkur atriði í viðbót sem mig langar að koma inn á. Í nefndaráliti 1. minni hluta, hv. þm. Árna Páls Árnasonar, á bls. 5 fer hv. þingmaður yfir sýn Seðlabankans á hvaða áhrif skuldaniðurfellingarnar munu hafa á einkaneyslu og verðbólgu. Það er gríðarlega mikilvægt innlegg og mikilvægt að fara í gegnum það vegna þess að við búum í verðbólgulandi, það er einfaldlega þannig. Við búum í landi þar sem við erum með gjaldmiðil sem er svo veikur að það þarf að verðtryggja hann með jafn afgerandi hætti og við þekkjum. Menn þekkja verðbólguskotin hér í gegnum tíðina og ég þarf ekki að fara yfir það. Ég man eftir því löngu fyrir hrun að við sem vorum nýbúin að kaupa okkur íbúðir þá fundum fyrir því þegar verðbólgan fór upp. Ég man til dæmis að í ágúst 2006 slagaði verðbólgan upp í 9%. Við höfum aldrei verið laus við þetta kvikindi, ef ég má orða það þannig. Verðbólgan hefur lagst mjög þungt á heimilin í landinu í gegnum tíðina og það er að mínu mati með hreinum ólíkindum að menn ætli að fara út í svona stóra aðgerð án þess að ætla að setja undir lekann. Af hverju eru menn ekki að vinna að því hörðum höndum að setja undir lekann og viðurkenna að við gætum þurft að ræða nýjan gjaldmiðil? Eina framlag þessarar ríkisstjórnar inn í þá umræðu er: Lokum einu færu leiðinni sem er á upptöku evru á komandi missirum. Þá erum við búin að losa okkur við þá leið. En kom eitthvað í staðinn? Nei, ekkert annað en það að bjóða okkur upp á sömu stöðu hvað varðar íslensku krónuna. Það er engin peningastefna kynnt til sögunnar samhliða því, engin, og það er engin peningastefna eða nýjar áherslur í henni kynntar samhliða þessum aðgerðum. Það mun þá hafa þau áhrif sem Seðlabankinn lýsir hér og kemur ágætlega fram á bls. 5 í áðurnefndu nefndaráliti að skuldaniðurfellingarnar muni auka einkaneyslu og verðbólgu. Þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir mótvægisaðgerðum áætlar Seðlabankinn að uppsöfnuð verðbólga vegna aðgerðanna verði 1,5%. Það hækkar verðtryggð lán heimila um 22 milljarða og þá eru ekki talin með áhrif verðbólgunnar á útgjöld heimila sem gætu hækkað á ársgrundvelli um tæpa 15 milljarða, og jafnframt á verðtryggð lán fyrirtækja sem munu þá hækka um 7 milljarða. Menn spá ekki í það.

Þetta er stór aðgerð en það vantar að menn horfi á heildarmyndina. Ef menn ætla út í svona stóra aðgerð þá þarf að setja undir lekann sem olli vandanum sem aðgerðin á að leysa. Það er góður hugur þarna að baki, að leysa vandann, það er allt í lagi. En menn reyna ekki setja undir lekann, ekki á nokkurn einasta hátt. Ef eitthvað er þá mun þessi aðgerð, eins og Seðlabankinn lýsir hér, auka enn á einkaneyslu sem skilar sér í aukinni verðbólgu sem leiðir til hækkunar íbúðaverðs. Menn setja peninga í umferð sem fara bara í hring og enda aftur sem hækkun á lánum heimilanna. Þetta finnst mér við þurfa að ræða.

Eitt stærsta kosningamál Framsóknarflokksins var afnám verðtryggingar. Og hverju skilar nefndin síðan sem átti að finna leiðir til að gera það? Jú, við ætlum að banna einn lánaflokk. Það er allt afnám verðtryggingarinnar, enda tók Framsóknarflokkurinn þessa skýrslu, skellti henni ofan í skúffu og læsti vegna þess að við höfum ekki heyrt múkk frá honum síðan um afnám verðtryggingar. Það er bara ekki minnst á það. En menn ætla að fara hér í gegn með frumvarp sem mun aftur skila sér í hækkun á lánum heimilanna um 22 milljarða, takk fyrir. Það er nú öll fyrirhyggjan.

Virðulegi forseti. Það er annað líka sem ég verð að koma inn á; það er að verða gríðarleg gliðnun í samfélagi okkar og stefna þessarar ríkisstjórnar hefur þau áhrif að mjög margar aðgerðir samanteknar munu valda gliðnun í samfélagi okkar milli tekjuhópa. Horfum á þessa aðgerð, hún mun klárlega gera það þar sem verið er að færa fjármuni til þeirra sem mest hafa vegna þess að þeir sem áttu minnst í eignum sínum voru búnir að fá töluvert í gegnum aðrar aðgerðir fráfarandi ríkisstjórnar. Ekki má heldur gleyma leigjendunum sem eru um 25% allra heimila. Þar er ekki síst að finna lægstu tekjurnar. Verið er að skilja þá hópa eftir, unga fólkið, þá sem eru námsmenn núna og geta ekki lagt fyrir í séreignarsparnað. Þeir munu ekkert fá út úr þessu nema reikninginn inn í framtíðina. Það er það sem verið er að gera, að senda þeim sem eru núna að mennta sig og byrja lífsgönguna, það eru skilaboðin. Það er kveðjan frá þessari ríkisstjórn.

Að lokum. Það er hægt að koma víða við en það hefur verið gert svo ágætlega að ég fer að láta staðar numið, en ég vil nefna þetta með að fjármálaráðherra sé eftirlátið að skilgreina forsendubrestinn, þ.e. hann fær 72 milljarða og sagt er við hann: Gerðu svo vel. Þegar allar umsóknirnar eru komnar fram þá stillir maður þetta af og finnur út prósentutöluna þannig að forsendubresturinn er ekki lengur 4,8% heldur er hann orðinn 72 milljarðarnir sem menn ætluðu að setja í verkefnið. Það þýðir að við vitum ekkert hver forsendubresturinn er eða hvernig hann verður skilgreindur. Svo verður hann skilgreindur, ókei. Þá verður fundin út tala sem miðað verður við. Hvað svo með framtíðina þegar verðbólgan er aftur komin á flug?

Við höfum séð jafn háa verðbólgu oft í gegnum tíðina. Hvaða væntingar er verið að gefa lántakendum í þessu landi? Verið er að gefa þær væntingar að það sé óeðlilegt að verðtryggingin tikki á ákveðinn hátt inn á lánin, sem þýðir að í raun og veru er verið að kippa þessu úr sambandi, verið er að setja þak á verðtrygginguna, eða ég hlýt að túlka það þannig. Hvernig ætla menn annars að gera þetta? Verið er að senda þau skilaboð að héðan í frá sé það forsendubrestur ef verðtryggingin verður hærri en sú upphæð sem skilgreind verður, sem við vitum ekki enn hver verður. Það er það sem verið er að gera hér þannig að við hljótum að þurfa að fá svör frá þessari ríkisstjórn hvað þetta muni þýða til lengri tíma. Það þýðir ekki bara að horfa á tímann núna og að menn verði í kapphlaupi við tímann við að uppfylla kosningaloforð með einhverjum sýndarmennskuhætti, eins og hér er gert, með öllum þeim annmörkum sem fylgja þessu frumvarpi. Það dugar mér ekki. Ég er hlynnt hugmyndinni um að við eigum að halda áfram á þeirri braut sem fráfarandi ríkisstjórn markaði og koma til móts við skuldug heimili. En leiðin sem hér er verið að varða er að mínu mati full af óvissu og getur komið mjög hart niður á komandi kynslóðum, ríkissjóði og þeim sem reiða sig á ríkissjóð vegna lífsafkomu sinnar.