143. löggjafarþing — 116. fundur,  15. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:06]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Við erum komin að lokum mikillar umræðu sem hefur oft og tíðum verið mjög málefnaleg, en í henni kristallast auðvitað talsverður ágreiningur milli manna og flokka. Nú kemur ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins fram með seinna mál sitt. Það er búið að afgreiða séreignarsparnaðinn og hér er skuldaleiðréttingin. Saman gera þessi tvö frumvörp ekki bara það sem mistókst síðastliðin fjögur ár, að leiðrétta skuldir heimila með almennum hætti og standa við það sem ýmsir hafa sagt vera óframkvæmanlegt, heldur fela þau einnig í sér efnahagsaðgerð sem skilar jákvæðum teiknum sem við höfum verið að leita eftir fyrir efnahagslífið til að fá hér fram jákvæða hvata.

Við framsóknarmenn höfum sagt síðan 2009 að hluti af því að skila þessari leiðréttingu til fólksins í landinu sé nauðsynlegur vegna þess að heimilin eru undirstaða atvinnulífsins í landinu. Nú er staðan þannig að ef þetta gengur eftir í þinginu þá náum við þeim árangri. Efnahagsaðgerðin er jákvæð, hún hefur jákvæða hvata fyrir alla þætti efnahagslífsins. Þetta er aðgerð sem skilar jákvæðri niðurstöðu til samfélagsins alls. Ég vænti þess að niðurstaðan í atkvæðagreiðslu um þetta mál í þinginu verði góð, bæði í dag og svo aftur í lokaafgreiðslunni.