143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri.

392. mál
[16:13]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir með síðasta hv. ræðumanni, hér er ekki verið að grípa til frekari íhlutunar varðandi aðkomu erlendra aðila í fjárfestingu á Íslandi heldur þvert á móti. Hér er verið að draga úr takmörkunum í takt við skuldbindingar okkar vegna EES-samningsins og líka vegna athugasemda sem við höfum fengið frá Eftirlitsstofnun EFTA. Nú munu þessi mál því verða þannig að tilkynningarskylda verður einungis þar sem takmarkanir eru á fjárfestingu erlendra aðila. Það er mjög í anda þess sem hin svokallaða fjárfestingarvakt, sem sett var á laggirnar á síðasta kjörtímabili, hefur lagt fram í sínum gögnum og ég tel að sé til mikilla bóta og einföldunar varðandi þessi mál.

Ég þakka hv. efnahags- og viðskiptanefnd fyrir þeirra aðkomu að þessu máli.