143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

samning stefnumarkandi frumvarpa og þingsályktunartillagna.

67. mál
[17:53]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Eins og hv. þingmaður, framsögumaður málsins, kom inn á þá er þetta mál samþykkt í nefndinni. Það var rætt mjög ítarlega þar og menn komust að því að tillagan eins og hún hljóðaði upphaflega væri nokkuð brött, mikil breyting á stuttum tíma og það kynni að vera betra að vinna þessu brautargengi með meiri sátt allra þingflokka eða aðkomu allra og eins því að menn mundu fara í gegnum kosti og galla framkvæmdarinnar.

Ég er mjög sáttur við þessa breytingartillögu eins og hún kom fram og ég tel að það verði mjög spennandi að sjá hvernig til tekst að fylgja skipun forsætisnefndar á nefnd til að fjalla um framhaldið. Ég bíð spenntur eftir niðurstöðunni og ef menn vilja mun ég vinna með í því að þróa þetta mál áfram.