143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[18:55]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tel að hér hafi tekist mjög vel til við að setja saman í eitt mál leið fyrir þá sem ýmist hafa misst húsnæði sitt eða eru að koma inn á fasteignamarkaðinn í fyrsta sinn og styðja þá til þess að kaupa sína fyrstu fasteign með sérstöku sparnaðarformi. Hvort það verður síðan í gildi til frambúðar er ákvörðun sem við þurfum að taka síðar.

Í það minnsta er ánægjulegt að okkur skyldi hafa tekist að koma þessu kerfi á fót í sama málinu og fólki verður kleift að nota þennan sparnað til að greiða niður húsnæðislán sín.

Þessi aðgerð er hvetjandi. Hún veitir skattalega ívilnun. Það er rétt að það er ekki án fórnar fyrir ríkissjóð, en það er vel þess virði. Hérna er stigið mjög stórt skref í þeirri heildaráætlun stjórnvalda að styðja við heimilin til að lækka (Forseti hringir.) húsnæðisskuldir sínar (Forseti hringir.) sem eru í sögulega miklu hámarki eins og við vitum.