144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:32]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er meðvitaður um það að bankaskatturinn er ekki beinlínis eyrnamerktur í þessar skuldaniðurfellingar. Það hefur hins vegar komið fram og ekkert annað hefur komið fram hjá ríkisstjórninni en það að bankaskatturinn sé forsendan fyrir því að fara í þessar svokölluðu skuldaleiðréttingar.

Sömuleiðis þykir mér þetta svar hv. þingmanns eiginlega vekja enn þá stærri spurningu vegna þess að ef bankaskatturinn er í sjálfu sér ekki eyrnamerktur fyrir skuldaniðurfellingar þá liggur fyrir að ríkissjóður eigi að borga þetta og bankaskatturinn sé í raun og veru ótengdur því. Mér finnst það óábyrgara ef eitthvað er.

Ég verð bara að ítreka spurninguna til hv. þingmanns, hvort hann telji það ábyrgt að nota þennan bankaskatt til skuldaniðurfellingar með hliðsjón af skuldastöðu ríkissjóðs. Og ef bankaskatturinn er í sjálfu sér ekki eyrnamerktur fyrir þessar skuldaniðurfellingar, hvaðan í ósköpunum telur hv. þingmaður þá að þessir peningar eigi að koma?