144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:01]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel reyndar að skattkerfið sé þegar farið að skila betri afkomu sjálfvirkt án breytinga á því sem slíku. Þess fór að sjást stað strax í lok árs 2012 og það hefur sannarlega reynst vera svo á árinu 2013. Þannig að svartsýnisúthlaup oddvita núverandi ríkisstjórnar í sumarbyrjun í fyrra, þegar þeir sáu þetta allt sótsvart, hefur sem betur fer reynst alveg tilefnislaust. Það má meira að segja sjá þess viss merki að hinir sjálfvirku margfaldarar séu farnir að virka. Hvað er að því að láta í grófum dráttum þetta tekjuöflunarkerfi halda sér og með því fara að mynda umtalsverðan afgang á ríkissjóði?

Hæstv. fjármálaráðherra tjáir sig hér lítið um þá staðreynd að afkoma næstu tvö ár verður í járnum. Það má samkvæmt hans eigin útreikningum og spám ósköp lítið út af bera til þess að ríkissjóður geti aftur lent í halla. Það er bara þannig. Afgangur upp á 0,2 til 0,3% af vergri landsframleiðslu er ekki mikið og við borgum ekki miklar skuldir með því. Samt telur hæstv. ráðherra sig hafa efni á því að missa út 10 milljarða í auðlegðarskatti og 5–8 milljarða í veiðigjöldum og mörgu fleira. En ef þessir fjármunir héldust inni, ef við hefðum komið á bankaskattinum og hann heldur fyrir dómi, gátum við náttúrlega líka notað hann í margt, ekki bara endilega það sem þarna fór.

Svo vil ég að lokum segja af því ég hafði ekki tíma til þess í minni ræðu, frú forseti, að nú þurfum við, þó að það sé dapurlegt, að fara að ræða þau teikn sem því miður eru að byrja að láta á sér kræla um að visst ójafnvægi sé að byrja að myndast í hagkerfinu á nýjan leik. Það sem ég hef hvað mestar áhyggjur af og les upp úr þessu fjárlagafrumvarpi og ríkisfjármálaáætlun til fjögurra ára er að nú er stefnan í ríkisfjármálum á pólitískum forsendum hætt að styðja við markmið Seðlabankans um langtímastöðugleika í hagkerfinu. Það er að byrja misgengi aftur milli þeirra áherslna sem lagðar eru í ríkisfjármálum á aðra hlið og lögbundins hlutverks (Forseti hringir.) Seðlabankans um að varðveita efnahagsstöðugleika. Það er grafalvarlegt og við höfum af slíku ástandi slæma reynslu samanber tímabilið frá 2003 til 2007.