144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:25]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki alveg hvort ég á að þakka fyrir þetta, ég held að þetta hafi verið hlý orð í minn garð. Ég held að það sé alls ekki bundið við það að vera sósíalisti að hugsa um þá sem minna mega sín, en við þurfum ekkert að vera sammála um það. En hins vegar er ég eðli málsins samkvæmt til í að setjast niður með hv. þingmanni hvenær sem er, það er skemmtilegt og oftar en ekki fræðandi. Ég skal hins vegar viðurkenna að ég kann ekki á vörugjaldakerfið. (SÞÁ: En vilt samt fella það niður.) Ég held að enginn viti neitt um það. Það er örugglega einhver sem hefur þokkalega mikla þekkingu á því en enginn hefur yfirsýn yfir það sem er einn partur af vandamálinu.

Ég skal hins vegar upplýsa hv. þingmann um að ég var í morgun í fjölskyldufyrirtæki sem búið er að vera til í áratugi á sömu kennitölu. Þar var verið að fara yfir þeirra sögu af vörugjaldakerfi. Um var að ræða byggingarvöruverslun og mér var sýnt bréf sem þarf að senda til tollsins; oft þarftu að fá lögfræðing til að fá vörur, sýna fram á að þær séu í viðkomandi tollflokki og þar af leiðandi þurfi ekki að borga vörugjald.

Ef við lítum utan á hús sjáum við allra handa klæðningar, sumar eru með vörugjöld, aðrar ekki. Það skiptir máli hvort flísar eru unnar eða jafnvel skornar, þ.e. hvort þær bera vörugjöld eða ekki. Á einhverjum tímapunkti ætluðu stjórnmálamenn eins og við að vera rosalega góðir og raða þessu þannig að góðu vörurnar væru ekki með vörugjöld en hinar slæmu væru með vörugjald. Síðan bara þróast þetta og þetta er orðinn frumskógur sem er engum til gagns. Það gerist ekkert annað en það að það er erfiðara fyrir fólk sem þarf að versla alla sína vöru hér á landi. Það er dýrara. Og hvaða fólk þarf að versla sína vöru hér á landi? Það er fólkið sem hefur minna á milli handanna. Ég vonast því til þess, þegar við erum búin að ræða þetta, að ég fái hv. þingmann í lið með okkur við að afnema þessi vörugjöld.