144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:15]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2015 og í annað sinn er lagt upp með hóflegan afgang, sem er vel. Frumvarpið er í eðli sínu stefnumarkandi og áfram er unnið með aðhald og aga og stefnt að því að stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs og unnið að því að hægt verði að greiða niður skuldir ríkissjóðs á komandi árum. Það tel ég mikilvægustu skilaboðin í þessu fjárlagafrumvarpi.

Það er hins vegar óhætt að segja, ef við horfum aftur í tímann, að við höfum lifað umbrotatíma. Við skulum fara 15 ár aftur í tímann og það er ótrúlegt að hafa upplifað öll fjögur stig hagsveiflu á þeim 15 árum. Nú er gjarnan talað um það í textabókum í hagfræði að ein hagsveifla geti staðið í 7–12 ár og höfum við sem þjóð því upplifað umbrotatíma, það er óhætt að segja. Árin 1999–2001 var samdráttarskeið, 2001–2007 var uppsveifla og mikið góðæri, 2008 hrun og krepputími sem við höfum í sameiningu náð að vinna okkur upp úr og upplifum nú betri tíma. En það þarf að taka á ýmsum málum. Við getum skilgreint þetta sem uppsveiflu og komandi góðæri ef vel er haldið á málum og ef við höldum okkur við þá stefnu sem birtist í þessum fjárlögum, að mínu viti, aðhald, aga, ráðdeild og afgang við slíkar aðstæður, þar sem er hagvöxtur. Markmiðið hlýtur á endanum alltaf að vera það sama, að bæta lífskjör allra þegna þjóðarinnar.

Hér hefur umræða um hækkun á matvælum í neðsta þrepinu úr 7 í 12% verið mikið til umræðu og kannski verið meginið af umræðu hv. þingmanna í dag. Það er auðvitað skiljanlegt. Ég vil ítreka að mikilvægt er fyrir okkur í því ljósi sem ég fór yfir, því sögulega ljósi, samhengi sem ég fór yfir með hagsveifluna að virðisaukaskattskerfið hefur verið að gefa eftir allan þennan tíma. Það skiptir engu máli hvort hagkerfið er að fara niður eða upp eða er í kreppu eða uppsveiflu, virðisaukskattskerfið, okkar mikilvægi tekjustofn, hefur verið að gefa eftir allan tímann. Það kallar á breytingar og breytingar geta verið erfiðar. Þegar breytingar kalla á samtakamátt er um leið mjög mikilvægt fyrir okkur að tala um samhengi hlutanna. Við höfum verið að taka út hér hækkun á matvæli og einfalda það og segja: Það má ekki hækka, það kemur niður á einhverjum hópum.

Það kann að vera, þá skoðum við það. En við hljótum að skoða með opnum huga þær kerfisbreytingar sem liggja fyrir í þessu frumvarpi í þeim tilgangi að efla þennan tekjustofn til þess að geta staðið undir velferðarkerfinu.

Þegar ég tala um samhengi hlutanna er ég að tala um nettóáhrif breytinganna. Verðlag fer niður, það er kjarabót í því að verðlag fari niður. Það fer í vísitölu, það fer í lánin og það er vissulega kjarabót fyrir alla þá sem skulda, öll heimili sem skulda. Ráðstöfunartekjur aukast, kaupmáttur eykst og þetta hljótum við að horfa á í stóra samhenginu og ég tala nú ekki um að aukin skilvirkni sem felst í því í atvinnulífinu, sem felst í afnámi almennra vörugjalda, ætti að geta birst í lægra vöruverði. Það sem skiptir máli þar er auðvitað samkeppni, að efla hér samkeppni í atvinnulífinu almennt, en það er auðvitað annað mál þó að það tengist þessu.

Ég vil því horfa mjög jákvæðum augum og með opnum huga á stefnuna sem birtist í þessu frumvarpi.