144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:42]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Fyrst um Póst- og fjarskiptastofnun. Nú skýtur skökku við að framlög lækki til þessarar eftirlitsstofnunar á þeim tímum sem við nú lifum vegna þess að ráðherra lét gera úttekt í kjölfar Vodafone-lekans og virtist ætla að efla öryggi og eftirlit í þessum efnum. Spurning mín til ráðherra er: Er ekki ástæða til að efla Póst- og fjarskiptastofnun enn frekar þannig að við getum tryggt þessi atriði í stað þess að skerða framlög til hennar?

Netöryggi á Íslandi er engan veginn í góðum málum. Það mun áfram gerast að viðkvæmar persónuupplýsingar leki út. Þetta er svolítið eins og hlýnun jarðar og hvirfilbylir og ofsaveður, þetta mun halda áfram að skella á okkur. Það er hægt að gera eitthvað í þessu. Póst- og fjarskiptastofnun á að vera að hugsa um þessa hluti. Það er verið að skerða þá akkúrat á þessum tíma. Ég spyr hvort ekki ætti frekar einmitt að tryggja að þessi málaflokkur sé vel fjármagnaður.

Svo varðandi Jöfnunarsjóð alþjónustu og Fjarskiptasjóð. Enn hefur ekki verið tryggður jafn aðgangur að netinu fyrir alla landsmenn. Aðrar þjóðir hafa markað stefnu hvað þetta varðar. Nýja-Sjáland er komið mjög framarlega. Menn setja sér stefnu um það að ná að minnsta kosti sem mestu og þetta hefur gengið vel þar. Ég hef ekki séð þessa stefnu á Íslandi en nú er að fara af stað vinna vegna þingsályktunartillögu sem við píratar fórum af stað með á grundvelli frumkvæðis og starfshóps hæstv. ráðherra Ragnheiðar Elínar Árnadóttur.

Hérna mætti spyrja ráðherra með hvaða hætti mætti tryggja fjármagn þannig að allir landsmenn hefðu jafnan aðgang að netinu. Eru það þessir sjóðir, Jöfnunarsjóður alþjónustu og Fjarskiptasjóður, sem ættu að fá fjármagnið eða eru það einhverjir aðrir? Þetta eru í rauninni tvær spurningar um þessa tvo sjóði og aðgang að netinu. Eru þá aðrar leiðir til þess, jafnari aðgangur, og svo hitt varðandi netöryggið og öryggissveitina, og á þá að efla Póst- og fjarskiptastofnun í þeim efnum?