144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:54]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Varðandi stöðuna í samgöngumálum almennt ætla ég ekki að fara frekar yfir það hér.

Varðandi Vestfirði sérstaklega þá gildir það sama um framkvæmdir þar. Ég ítreka það sem ég hef áður sagt að ég vonast til þess að þingið taki í meðförum sínum tillit til þess sem ég nefndi hér í upphafi ræðu minnar áðan sem lýtur að því að þetta 850 millj. kr. viðbótarframlag fari heldur í viðhald og öryggismál en í nýframkvæmdir. Ég held að Vegagerðin hafi mikið til síns máls í því sambandi.

Það sem þetta þýðir fyrir Vestfirði er það sama og það þýðir fyrir aðrar byggðir landsins. Þau verkefni sem þegar eru samningsbundin, með þau verður haldið áfram. Þau sem ekki eru samningsbundin eru í ákveðinni óvissu. Það er bara staðan. Við getum farið betur yfir það eða ég get látið taka saman fyrir hv. þingmann nákvæmlega hvernig það kemur út gagnvart Vestfjörðum.

Það sem mér hefur fundist skipta mestu máli og ég veit að það gæti æst upp einhverja umræðu núna en ég ætla ekki að gera það. Það sem mér finnst skipta mestu máli varðandi samgöngur á Vestfjörðum er auðvitað það að vegurinn í gegnum Teigsskóg verði að veruleika. Ég hef viljað vinna að því. Tel það algjört forgangsverkefni fyrir Vestfirðinga. Málið er statt, skulum við kalla, innan kerfis nákvæmlega núna. Ég hef viljað klára það og tryggja það að sú mikla samgöngubót verði að veruleika. Ég vona að það takist sem fyrst.

Varðandi það sem nefnt er um átak vegna kynferðisbrota gegn börnum tek ég undir það sem hv. þingmaður nefndi í því. Það er hins vegar þannig að til verkefnisins fór á milli ráðuneyta ákveðið fjármagn á síðasta ári. Það er í ákveðnum liðum fjárlagafrumvarpsins á þessu ári. Ég get líka látið taka það saman fyrir hv. þingmann. Ég minni hins vegar á það, en veit að hæstv. dómsmálaráðherra hefur sjálfsagt nefnt það hér í morgun, að það er 500 millj. kr. viðbótarframlag (Forseti hringir.) til löggæslunnar líkt og var á síðasta ári. Líkt og nýskipaður lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu hefur nefnt verður ákveðin forgangsröðun þar og hjá öðrum embættum á þessi (Forseti hringir.) verkefni.