144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:34]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Mér varð það á í morgun að leggja fyrirspurn fyrir hæstv. ráðherra Ragnheiði Elínu Árnadóttur um jöfnun flutningskostnaðar en var þá pent upplýstur um að það heyrði undir hina deildina í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Ég ætla því að vippa mér í að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé ekki ansi naumlega skammtað að setja ekki nema 175 millj. kr. á þennan lið.

Fyrir tveimur eða eiginlega þremur árum var lagt upp með 200 milljónir og það var naumlega sú áætlun sem þá lá fyrir um að það mundi duga til að endurgreiða áætluð 10 og 20% af flutningskostnaðinum, þeim flutningskostnaði sem þarna fæst endurgreiddur vegna framleiðslustarfsemi og slíkra hluta. Ég hefði nú frekar talið, vegna þess að almenn ánægja hefur þó ríkt með það að loksins var lagt af stað í margumtalaða jöfnun flutningskostnaðar sem búið var að jarma um hér á þingi og víðar, ég veit ekki hve lengi, í eina tvo, þrjá áratugi. Og það þurfti kreppuna til og vinstri stjórnina að koma því af stað. Eftir frægan fund og heimsókn ríkisstjórnar til Ísafjarðar var ákveðið að hrinda þessu af stað og 200 milljónir voru áætlaðar í þetta og ef ég man rétt var matið að þurft gæti um 210–220 milljónir. En það var alla vega lagt upp með þetta.

Nú er það komið niður í 175 milljónir. Það kemur mér mjög spánskt fyrir sjónir ef þetta er ekki ávísun á það að hreinlega verði að skerða með einhverjum hætti endurgreiðslukröfuna sem kemur og á þá samkvæmt lögunum að vera 10 og 20% af flutningskostnaði miðað við skilgreind svæði. Ég spyr því um stöðuna á þessum lið. Það er gott að fjárheimildin er komin inn, hún hvarf út í fyrra og menn fleyttu sér á því að í fyrra fyrirkomulagi hafi fjárheimildin verið sett inn árið á undan en nú verður að koma fjárheimild eigi ekki að leggja þetta af og það er þá fyrir því séð með þessu, en mér finnst fjárhæðin ansi lág.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra um Framleiðnisjóð landbúnaðarins og hverju það sæti að ekki virðist eiga að standa að fullu við samningsbundna áætlun um að auka í skrefum framlög til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins. Það stendur allt í einu hér að annars vegar sé lögð til 25 millj. kr. hækkun í samræmi við búnaðarlagasamning, löggerning, samning frá 28. september 2012, en hins vegar er gert ráð fyrir 8 millj. kr. lækkun vegna aðgerða til lækkunar ríkisútgjalda. Getur ríkisstjórnin bara ákveðið það sisvona að skerða samning sem búið er að ganga frá og undirrita og samþykkja báðum megin frá þó að hún hafi einhverjar aðhaldskröfur uppi almennt?

Valin var sú leið á miklum erfiðleikatímum að taka framlög til Framleiðnisjóðs mjög langt niður. Það var engum ánægjuefni en því var jafnframt heitið að um leið og betur áraði yrði farið að byggja það upp aftur í áföngum og við það var staðið með þessum (Forseti hringir.) búnaðarlagasamningi, en nú sýnist mér ekki einu sinni eiga að standa að fullu við hann.