144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:57]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Landshlutaáætlanirnar voru upp á um 100 milljónir í fyrra og það var áætlað að þær yrðu af svipaðri stærðargráðu núna. Einhverra hluta vegna birtust 15 milljónir í pappírnum sem ég hlýt að líta á sem mistök. Eins og ég segi er á forræði fjármálaráðuneytisins að fjármagna þetta verkefni þó að það komi í hlut byggðamálaráðherrans að deila því til landshlutanna eftir að stýrinet ráðuneytanna hefur fjallað um málið.

Ég sé fyrir mér að það sé skynsamlegt að auka þetta eitthvað, ekki óendanlega mikið, og það þarf að gera það í einhverjum skrefum þannig að þetta nýtist sem best í höndum heimamanna. Það er rétt að það er Byggðastofnun sem fer með Brothættar byggðir áfram alveg eins og verið hefur þó að fjármagnið sé sett undir liðinn byggðaáætlun vegna þess að þar var fjallað um það og það samþykkt á þinginu í fyrra. Þá er það komið inn í fjárlagarammann.

Varðandi Framleiðnisjóð landbúnaðarins og þá stefnu að allt eigi að stefna inn í þessa stóru sjóði og það sé eina skilvirknin kom ég einmitt inn á það að náttúrustofurnar hringinn í kringum landið og rannsóknasetur Háskóla Íslands hringinn í kringum landið hafa komið til mín bæði sem landbúnaðarráðherra og umhverfisráðherra og sagt að það sé mjög mikilvægt að AVS-sjóðurinn, Framleiðnisjóður og slíkir minni sjóðir, sem eru beinlínis ætlaðir til rannsókna, séu til. Litlu fyrstu verkefnin fá ekki nægilega athygli hjá stóra sjóðnum. Það er þá annars vegar verkefni fyrir okkur að fá þann sjóð og þá sjóði til að horfa á þessar greinar sem nýsköpunargreinar, sem þær svo sannarlega eru, og hins vegar að fá atvinnugreinarnar til að sækja þar inn. Þessar litlu rannsóknarstofur okkar hringinn í kringum landið geta þá orðið þátttakendur í því en þeim hefur fundist það mjög mikilvægt.

Í millitíðinni hef ég farið þá leið, m.a. til þess að auka skilvirkni, að færa umsýslu AVS-sjóðsins inn til Byggðastofnunar (Forseti hringir.) og það er til skoðunar að skoða framleiðnisjóðsyfirstýringuna með svipuðum hætti.