144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:18]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svörin. Af því að hann ræðir hér um reynslu Letta þá nefndi ég líka Svíþjóð, sem er kannski öllu nærtækara dæmi og nágrannaþjóð okkar, og líka þá staðreynd að það eru einungis fjórar þjóðir í Evrópu, eins og ég held að hafi komið fram í máli hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur, sem eru með 12–25% virðisaukaskatt á bókum. Það er þangað sem hæstv. fjármálaráðherra leggur til að Ísland færi sig.

Ég nefni líka að það sama gildir þá væntanlega um tónlistina. Af því að ég spurði sérstaklega um sóknaráætlun skapandi greina og hæstv. ráðherra sagði að sóknaráætlunin fælist í kyrrstöðu — fyrir utan myndlistarsjóðinn sem er skorinn niður, sem ég vænti þess að sé einhvers konar handvömm af hálfu hæstv. fjármálaráðherra — þá hefði ríkisstjórnin færi á því að draga aðeins úr kyrrstöðu sóknaráætlunarinnar, því að annars kynni þetta að reynast ákveðið rangnefni, og til að mynda endurskoða þessa virðisaukaskattlagningu þegar kemur að bókum og tónlist.

Þetta tengist auðvitað því sem hér hefur verið rætt um stöðu tungunnar. Mig langar að bæta við einni spurningu um stöðu tungunnar í stafrænum heimi. Hér var samþykkt þingsályktun um stöðu íslenskunnar í stafrænu umhverfi. Það eru engin fjárframlög, sýnist mér, áætluð til að fylgja eftir þessari þingsályktun en ráðherra segir jú og þá bið ég hæstv. ráðherra um að upplýsa okkur um það hvar þau leynast í fjárlagafrumvarpinu. Það er auðvitað gríðarlega brýnt mál að því verði sinnt.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að virðisaukaskatturinn verði endurskoðaður og ræddur á vettvangi ríkisstjórnarinnar því að ef við leyfum okkur að læra af reynslu annarra þjóða er a.m.k. ljóst að við erum að færa okkur í hóp sem er mjög fámennur, ekki aðeins í Evrópu heldur líka í Asíu. Ég veit að hæstv. ráðherra er mikill áhugamaður um PISA-könnunina. (Forseti hringir.) Ef hann skoðar virðisaukaskattsprósentu í þeim löndum sem standa sig best í PISA rennir mig í grun um að þar geti hún víða verið ansi lág.