144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:07]
Horfa

Brynhildur S. Björnsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka gott og heiðarlegt svar. Við erum náttúrlega alveg sammála um það að þessi vaxtagjöld hverfa ekki og við erum í þeirri stöðu sem við erum, en við erum samt að ræða hér forgangsröðun ríkisstjórnarinnar og hún birtist í frumvarpi til fjárlaga. Það eru auðvitað til peningar, þeir eru bara settir í annað. Það þýðir ekki að tala um það núna en við vorum ekki sátt við það til að byrja með. Það voru til peningar til að gera þetta.

Varðandi brottfallið þá fannst mér umræðan fara aðeins meira út í það sem ráðherra var að tala um í sambandi við meðalaldur nemenda. Ég sé ekki alveg að tengingin við brottfallið sé þar þannig að ég vildi gjarnan heyra meira um það í öðru svari. Ég vona að einhverjar aðgerðir verði settar í gang á þessu tímabili, hvort sem það verður starfshópur eða hvað sem það er, til að velta vöngum yfir þessu atvinnuleysi. Það er mjög sláandi að sjá ungt fólk, sem jafnvel útskrifast snemma og tilheyrir ekki þessum háa meðalaldurshópi sem verið var að tala um, eiga litla möguleika á að fá vinnu við það sem það vill vinna við. Eitthvað þurfum við að gera.