144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

skattsvik.

[15:21]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Það er gott að heyra að við erum á sömu blaðsíðu. Ég velti samt fyrir mér einu. Það var farið í þetta átak eftir hrun. Var það þannig að við fórum allt í einu að svíkja skatt eftir hrun eða var það ekki kannski frekar þannig að þá þurftum við á hverri krónu að halda? Átakið sem var farið í eftir hrunið hefði í raun átt að hefja löngu fyrr.

Mér finnst áhyggjuefni hér á landi hvernig viðhorfið gagnvart skattsvikum er og ég hefði haldið að hverri krónu sem væri varið í þetta eftirlit væri vel varið.

Nú er það líka þannig að ef ég man rétt voru verkalýðsfélögin, ASÍ og Samtök atvinnulífsins í þessu átaki og lögðu ekki síður sitt af mörkum. Mér finnst áhyggjuefni að það sé verið að skera niður til skattrannsóknarstjóra. Það kemur fram í fjárlagafrumvarpinu að þetta eftirlit hafi skilað miklum árangri, vakið vitund, bætt skattrannsóknir og aukið tekjur ríkissjóðs. Hvers vegna þá að draga í land?