144. löggjafarþing — 5. fundur,  15. sept. 2014.

staða og öryggi í fjarskiptum á landsbyggðinni og uppbygging háhraðatengingar í dreifbýli.

[16:25]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir þessa þörfu umræðu og hæstv. ráðherra fyrir hennar svör. Við ræddum þetta síðast á föstudaginn, ég og ráðherra. Þetta er gríðarlega brýnt mál. Við sem búum í þessum þremur landsbyggðarkjördæmum þekkjum það af eigin raun að hjá okkar fólki eru fjarskiptamál víða í miklum ólestri og það er gríðarlega mikið hagsmunamál að koma þeim í lag.

Ég get tekið undir að mér finnst það áhyggjuefni þegar verið er að markaðsvæða grunnþjónustu eins og hringtenginguna. Mér finnst þetta flókinn málaflokkur vegna þess að oft vísar bara hver á annan. Þetta eru ýmist Míla, fyrirtækin eða Fjarskiptastofnun. Ég verð að viðurkenna það að ég skil ekkert allt of mikið í þessum málaflokki. Við erum með markaðssvæði eða markaðsbrest og fólk situr allt of víða uppi með að í rauninni sé ekkert hægt að gera.

Ég vil halda því fram að það sé ekki hægt að vera með einhverja byggðastefnu hér sem eitthvert vit er í nema fjarskiptin séu, ekki bara í lagi heldur góð um allt land. Þetta snýst um atvinnulífið, þetta snýst um búsetu, þetta snýst um öryggi og þetta verður einfaldlega að vera í lagi. Þetta er í rauninni eins og samgöngur.

Mér finnst líka athyglisvert að heyra og maður les fréttir af því að sveitarfélög úti á landi leggi víðast sjálf í kostnað og fari með ljósleiðara inn í hús og greiði það sjálf.

Ég vona að ráðherra flýti aðgerðum eins og henni er unnt því að það er eiginlega ekki boðlegt fyrir fólk sem býr úti á landi að staðan sé svona. Maður upplifir sig í raun svolítið eins og annars flokks og það er ekki gott.