144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:53]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Föt eru að sjálfsögðu nauðsynleg en þar er nú komið út í vöru þar sem menn hafa talsvert svigrúm til að velja sér bæði verð og það hversu vel þeir ganga út úr fötunum sínum. Ég tek eftir því að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson er mjög upptekinn af þessu, og hefur verið undanfarna daga, að sumir fari iðulega til útlanda og kaupi þar sín föt og jafnvel í Fríhöfninni.

Það er ekki einhlítt. Ég veit um fullt af fólki sem ferðast mikið til útlanda, þar á meðal er undirritaður sem hefur oft og iðulega þurft þess í sínu starfi undanfarna áratugi. Ég kaupi nánast aldrei föt í útlöndum, einfaldlega af því að hér eru alveg ágætisbúðir og afgreiðslumennirnir sumir kunningjar mínir og þar fæ ég góða þjónustu og fínustu föt. Ég hef ekki rekist á þennan óskaplega verðmun, satt best að segja, enda er ég ekki að kaupa einhver tískumerki. (Gripið fram í.) Það getur vel verið að hv. þingmaður sé í öðrum kreðsum og umgangist annað fólk sem flýgur iðulega til útlanda til að kaupa tískufatnað. Ég held að það sé ekki stóra málið í þessu.

Við höfum stundum rætt um það hvort barnaföt og barnavörur ættu að fá sérstaka meðhöndlun í þessum efnum og vera í lægra þrepi. Bretar eru með hreinlega engan virðisaukaskatt á barnafötum upp að vissum aldursmörkum. Það virðist ganga hjá þeim. Það er hægt að skoða ýmislegt í þessum efnum ef menn eru ekki of hræddir við það að hafa útfæra slíkar reglur í skattkerfi.

Einhvern tímann langar mig, herra forseti, til að halda ræðu um þetta einföldunarkjaftæði. Það verður seinna því að ræðutíminn er ekki mikill núna. Mig langar að tala um þau heilögu einföldunarrök að það sé alltaf allt réttlætanlegt og menn þurfi ekkert að rökstyðja það þegar þeir breyta skattkerfinu ef þeir segja að það sé til einföldunar eins og þetta átti víst að vera þótt við sitjum áfram uppi með tvö þrep. 12% er ekkert einfaldari tala en 7%.

Skattkerfi eru alltaf í eðli sínu flókin. Það er engin leið að útfæra þau öðruvísi enda væru þau þá ófreskja og menn misstu þá fyrir borð öll félagsleg og umhverfisleg markmið (Forseti hringir.) sem og önnur markmið sem menn vilja leggja til grundvallar vandaðri lagasetningu í þessum efnum. Þá verða hlutirnir flóknir ef við erum að reyna að samþætta og ná fram í einu mörgum markmiðum. (Forseti hringir.) Þannig er það meðal annars í skattamálum.