144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[17:59]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög málefnalega ræðu sem sneri sérstaklega að áhrifunum á bækur og bókaútgáfu í landinu. Það er spurt hér um fleira og meðal annars velt vöngum yfir því hvaða áform séu uppi um breytingar á tekjuskattskerfinu. Ég get sagt frá því að það hafa ekki verið uppi neinar ákveðnar tillögur þar aðrar en þær að reyna að draga úr flækjustiginu og vinna til baka þetta þriggja þrepa kerfi ásamt með háum persónuafslætti.

Hv. þingmaður getur gengið út frá því að það verði unnið út frá því meginmarkmiði að lækka skatta, að lækka þá beinu skatta sem er að finna í tekjuskattskerfinu. Áhrifin af þeim breytingum ættu að verða til þess að auka kaupmátt. Ég tel að það eigi síðan að vera hluti þeirrar skoðunar að velta því upp hvort við séum með of flókið samspil af ívilnunum annars vegar og beinni skattlagningu hins vegar, t.d. þegar þeir sem eru komnir með um tvöföld meðallaun í landinu þiggja enn stuðning frá ríkinu en borga mjög háan tekjuskatt. Hvers vegna að vera með mörg prósent í viðbótartekjuskatt hjá þeim sem eru með tvöföld meðallaun og borga þeim síðan vaxtabætur eða barnabætur með hinni hendinni? Þetta finnst mér óskynsamlegt og hlýtur að koma til skoðunar þegar við veltum þessu fyrir okkur.

Ég vil segja varðandi virðisaukaskattinn á bækur að ég geri mér grein fyrir því að það er viðkvæmt mál. Sagan sýnir okkur að við höfum verið með bækurnar í efsta þrepi, við höfum verið með þær undanskildar, eins og hv. þingmaður rakti, og við höfum verið með þær í 7% og 14% og nú er verið að leggja til 12%. Það er kannski enginn heilagur sannleikur hver prósentan á að vera. Það er auðvelt að segja að það sé verra fyrir bókaútgáfuna að fara í 12% en að vera í 7%, ég skil það, en ég held samt að við eigum að skoða það af fullri alvöru í fyrsta lagi hvort þetta sé líklegt til þess (Forseti hringir.) að hafa áhrif á læsi eða frekar á bókaútgáfuna sem slíka.

Síðan er ég með spurningu (Forseti hringir.) til hv. þingmanns um það hvort hún hafi velt vöngum yfir því hvort við getum (Forseti hringir.) undanþegið íslenskar bækur sérstaklega frá öðrum bókum í virðisaukaskattskerfinu.