144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[18:01]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir þetta andsvar þar sem hann í raun dró fram að fyrirhugað er að horfa til frekari einföldunar, eins og það heitir, á tekjuskattskerfinu. Það er mjög mikilvægt að við áttum okkur á því í hverju þær breytingar munu felast.

Ef ætlunin er að fara úr þremur þrepum í tvö, hvað mun það þýða fyrir tekjulægstu hópana? Það hefur margoft verið rætt hér og held ég viðurkennt af hæstv. ráðherra að þær breytingar sem voru gerðar á skattkerfinu og upptaka hins þrepaskipta kerfis gerði það að verkum að tekjulægri hóparnir komu t.d. betur út úr þeirri kreppu sem við höfum verið að fara í gegnum undanfarin ár en hinir tekjuhærri þannig að breytingarnar höfðu bein áhrif til tekjujöfnunar. Þetta finnst mér mikilvægt af því að ég er þeirrar skoðunar að það eigi ekki aðeins að nýta skattkerfið til tekjuöflunar fyrir samfélagið heldur líka til tekjujöfnunar og að velferðarkerfið eigi að vera þannig uppbyggt að það nýtist öllum jafnt án gjaldtöku og það sé aftur önnur leið til tekjujöfnunar. Á því getur fólk auðvitað haft ólíkar skoðanir en það er mjög mikilvægt að við sjáum fyrir afleiðingarnar þegar við ræðum einstaka hluta skattkerfisins.

Hvað varðar bækurnar þá var ég ekki einu sinni búin að hugleiða hvort þetta væru íslenskar bækur eða ekki. Ég hef litið svo á að þetta eigi við um allar bækur — það á við um allar bækur núna. Ég átta mig hreinlega ekki á því hvort það er heimild til þess að gera einhverjar undanþágur sérstaklega fyrir innlendar bækur. Kannski hæstv. fjármálaráðherra geti upplýst okkur um það. Það sem ég sé hins vegar í því máli eru ákveðin menningarleg pólitísk rök fyrir að ganga þá leið að afnema virðisaukaskatt á bækur því að ýmsar rannsóknir benda til þess að læsi snúist um það að fólk hafi lesefni sem það hefur áhuga á. Það vill helst lesa bækur úr samtíma sínum, sínu samfélagi. Það er kannski það sem vekur fyrst áhuga barna. Það er mjög áhugavert, en það eru auðvitað ólíkir hlutir sem vekja áhuga barna til læsis. Þess vegna er svo mikilvægt að það sé fjölbreytt úrval af bókum og lesefni fyrir börn svo þau fái þann (Forseti hringir.) nauðsynlega hvata til að læra að lesa.