144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[18:30]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og er sammála henni í meginatriðum. Það væri til einhvers farið ef þessi umræða yrði til þess að augu okkar í þinginu opnuðust fyrir mikilvægi menningar og því jafnvel að hún búi við þann samfélagslega stuðning sem henni ber, sérstaklega gagnvart tungumáli sem á í vök að verjast.

Þá enn og aftur að umræðunni hér. Ég hef fylgst með stjórnmálum frá því ég man eftir mér og ég man aldrei eftir því að það hafi gerst að menn hafi lýst yfir fyrirvörum við fjárlagafrumvarp án þess að litið hafi verið beinlínis á það sem fyrirvara við ríkisstjórnarstuðning. Það er því í raun og veru algjörlega ný staða komin upp. Ég sé að það eru tveir framsóknarmenn í salnum sem gætu kannski hjálpað okkur hv. þingmanni með þetta, þ.e. hvort þeir telji það vangaveltnanna virði, af því hæstv. fjármálaráðherra hefur jú aðeins svarað því, að skoða nákvæmlega þetta, þ.e. menninguna.

Ýmsir þingmenn Framsóknarflokksins hafa talað um að það sé umhugsunarefni hvort hækkun á virðisaukaskatti á mat eigi rétt á sér, en ekki síður hvort lækkun á vörugjaldi á sykraða matvöru eigi rétt á sér í ljósi lýðheilsumarkmiða. Þarna erum við í svolítið sérkennilegri stöðu, við áttum okkur ekki alveg í raun á því hver viðmælandinn er. Að jafnaði er það þannig að fjárlagafrumvarpið og bandormarnir sem því tengjast eru stjórnarfrumvörp sem ríkisstjórnarflokkarnir standa með. Í þessari stöðu er viðfangsefnið ögn snúnara þar sem annar stjórnarflokkurinn ekki bara meldar sinn fyrirvara heldur til viðbótar kemur ekki hér í umræðuna til þess að gera okkur hinum grein fyrir því hver afstaðan hans er til lykilþátta eins og til að mynda þessa hér.