144. löggjafarþing — 6. fundur,  16. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[21:26]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað ástæða til þess að óska hv. þm. Pétri Blöndal til hamingju enda er hann hér í skýjunum. Það er lærdómsríkt og gagnlegt að fá inn í þessa umræðu svona ómengaða blinda trú á hægri frjálshyggjukreddurnar í skattamálum eins og við fengum hér að heyra. Að fagna bara alltaf skattalækkunum og trúa því að með því að lækka skatta nógu mikið aukist tekjurnar. Þær verða sennilega aldrei meiri en þegar skatthlutfallið er orðið núll eða hvað, ef þetta lögmál er algilt? Ekki eitt orð, frekar en er í greinargerð fjárlagafrumvarpsins, um að skattar hafi einhverju öðru hlutverki að gegna, að þeir séu tekjuöflunartæki til þess að standa undir sameiginlegum þörfum samfélagsins. Aldrei minnst á það. Bara glaðst yfir því að þeir lækki. Enn síður er nú talað um að þeir hafi tekjujöfnunarhlutverki að gegna.

Það tekur meiri tíma að fara yfir þetta og við hv. þingmaður höfum svo sem átt þessar snerrur áður. Ég ætla að leyfa mér að mótmæla þeirri skoðun sem hv. þingmaður setti hér fram með litlum rökum að heildarbreytingar þessa frumvarps komi sennilega bara sérstaklega vel út fyrir tekjulágt fólk. Ég tel það fjarstæðu. Hv. þingmaður skautar fram hjá þeim staðreyndum að fyrir liggur, samanber greiningu sem er hægt að nálgast á heimasíðu Alþýðusambands Íslands, að tekjulægsta tíundin ver tvöfalt hærra hlutfalli af ráðstöfunartekjum sínum í mat en tekjuhæsta tíundin, 20% í staðinn fyrir 10%. Svo segir hv. þingmaður: Já, en ég vil vita í hvað hin 80% fara. Og þar telur hann sig finna sannleikann. Þau fari í flatskjái, ísskápa, þvottavélar og annað því um líkt.

En gæti hugsast að einmitt hjá tekjulægstu tíundinni, sem verður að ráðstafa 20% af ráðstöfunartekjum sínum í mat, fari restin í aðrar algerlega óumflýjanlegar þarfir eins og húsnæði, mat og nesti og föt á börnin og annað því um líkt? Ég á eftir að sjá þá greiningu sem sýnir okkur að tekjulægsti hópurinn sem eyðir 20% af tekjum sínum í mat bæti sér það svo upp með tilkomu þessara (Forseti hringir.) frumvarpa með því að kaupa dýr rafmagnstæki og tól.