144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[17:26]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get bara bent hæstv. fjármálaráðherra á rannsókn Þjóðmálastofnunar Háskóla Íslands þar sem þetta kemur skýrt fram. Þar er það rakið í smáatriðum hvernig sjö af tíu tekjubilum komu betur út vegna aðgerða síðustu ríkisstjórnar. Hæstv. fjármálaráðherra verður þá að eiga fræðilegan ágreining við þá stofnun.

Hæstv. ráðherra hefur aldrei haft fyrir því að kynna sér tillögur okkar frá því í fyrra, hann bullar alveg út í eitt um efnislegt inntak þeirra. Við lögðum fram fjármagnaðar tillögur um það hvernig hægt væri að mæta lægstu tekjuhópunum en við gerðum breytingar. Við studdum tillögu hans um að 5 milljarðar færu til að bæta hag meðaltekjuhópa. Við komum með breytingartillögu: Í staðinn fyrir að lækka prósentuna og þar með tryggja langmestu peningana til langríkasta fólksins lögðum við fram aðra útfærslu sem fól í sér að hækka neðri mörkin í þrepinu þannig að þorri ávinningsins kæmi hjá fólki strax við 250 þús. kr. og sneiddist síðan út þannig að hann yrði að engu við 600 þús. kr., þannig að þorri fólks á meðaltekjum mundi koma miklu betur út.

Þetta var miklu skynsamlegri leið til að ráðstafa 5 milljörðum en leiðin sem hæstv. fjármálaráðherra fór. En hann vildi ekki feta þessa leið vegna þess að hún kom ekki nógu vel út fyrir vini hans. Fólkið með 800 þús. kr. og yfir, það fékk nefnilega 4.500 kr. út úr breytingunni sem hann lagði til en fólk með 300 þús. kr. bara 500 kall.

Það er þessi grundvallarveikleiki sem lá í tillögum ríkisstjórnarinnar. Við lögðum fram breytingartillögu. Henni var hafnað. Við studdum samt breytinguna en við studdum eindregið þá niðurstöðu sem á endanum varð ofan á, eftir að Alþýðusambandið hafði haft vit fyrir ríkisstjórninni og gert hana heimaskítsmát í þessum ósanngjörnu útfærslum sínum.

Það er lágmark að hæstv. fjármálaráðherra fari með rétt mál þegar hann vogar sér hér úr ræðustól að rekja afstöðu annarra stjórnmálaflokka til skattbreytinga.