144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[19:03]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég held að það sé afar mikilvægt, eins og hv. þingmaður leitaðist við að gera í ræðu sinni, að draga upp meginlínur um það hvað verið er að gera hér; ekki bara að draga fram einstakar tillögur heldur miklu frekar að reyna að átta sig á því hver hreyfingin er í þessum frumvörpum og ekki bara í þessu frumvarpi heldur líka í því sem var til umræðu hér á undan. Kannski hefur maður mestar áhyggjur af þeirri atvinnustefnu sem birtist í raun þegar allt þetta er tekið saman.

Mig langar til að biðja hv. þingmann, vegna þess að nú er sú undarlega staða komin upp að þetta frumvarp, líkt og það sem er á undan, er í raun opið þegar það kemur til efnahags- og viðskiptanefndar. Framsóknarflokkurinn hefur lýst því yfir að hann hafi fyrirvara á samþykkt sinni að því er varðar þessi frumvörp.

Þá langar mig að spyrja hv. þingmann, af því að hér er um bandorm að ræða og gríðarlega mörg mál sem eru þarna undir í sjálfu sér, kjörlendi fyrir laumufarþega ef svo má að orði komast, að hverju væri mestur fengur fyrir atvinnulífið að því er varðar endurskoðun eða breytingar á frumvarpinu eins og það liggur fyrir. Hvar er mikilvægast að taka slagina, ef svo má að orði komast, í efnahags- og viðskiptanefnd til að færa málið til betri vegar? Sá undarlegi veruleiki blasir við okkur að málið hefur augljóslega ekki meirihlutastuðning í þinginu sem gefur góðum hugmyndum ákveðið sóknarfæri. Og hvar eru þær helstar?