144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[19:05]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka spurninguna, hún er stór, en ég ætla að leyfa mér að gefa svar í stórum dráttum.

Þar sem ég er talsmaður þess að skattkerfið sé einfalt, alla vega á þann hátt sem ég skil það hugtak, og gagnsætt, mundi ég vilja hætta þessum leik með tryggingagjaldið. Ég mundi vilja að tryggingagjaldið yrði endurreist sem gjald vinnumarkaðarins til að fjármagna ákveðin vinnumarkaðstengd verkefni. Mér er þá einkum og sér í lagi umhugað um Atvinnuleysistryggingasjóð og Fæðingarorlofssjóð. Ég mundi vilja sjá sátt um það að vinnumarkaðurinn greiði ákveðna prósentu í verkefni sem eru vinnumarkaðnum mikilvæg. Ég mundi þá vilja breyta því að verið sé að seilast inn í tryggingagjaldið beinlínis til að fjármagna ríkissjóð. Það heitir að fjármagna almannatryggingakerfið en þarna er bara verið að ná í peninga til að fjármagna ríkissjóð.

Mér finnst menn ekki geta sagt, á sama tíma og menn eru að gera þetta, eftir alls konar flóknum leiðum sem birtast í þessu frumvarpi og líka síðasta árs um sama efni, meðan menn eru að þessu, að þeim sé eitthvað sérstaklega umhugað um að hafa skattkerfið einfalt og gagnsætt þannig að ég mundi vilja breyta þessu.

Ég mundi líka vilja að tekjur loftslagssjóðs renni í loftslagssjóð svo að dæmi sé tekið. Mér er mjög umhugað um uppbyggingu græna hagkerfisins.

Ég ætla að láta þetta nægja.