144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[15:31]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir það sem hann hefur farið í gegnum í svörum við þeim spurningum sem hafa komið fram við umræðuna. Ég var með nokkrar spurningar og tók ekki eftir að hæstv. ráðherra færi í úrvinnslugjaldið á raftækjum, hvort tekið væri tillit til þess þegar verið er að reikna fjárhagslegan ávinning af vörugjaldalækkun eða afnámi vörugjalda á þessi tæki og ítreka ég þá spurningu.

Ég ætla í fyrra andsvari mínu að halda mig við greiðsluþátttöku lyfja. Ríkisstjórnin boðar breytingu á S-merktum lyfjum þannig að þau falli undir almenna greiðsluþátttökukerfið. Ég tók dæmi um að sjúklingar eru útskrifaðir af spítölum miklu fyrr en áður var. Er það þannig, og ég vil að hæstv. fjármálaráðherra svari mér alveg skýrt, að hér sé á ferðinni það sem ég kalla laumufarþega sem er að útbúa lagabreytingu fyrir heilbrigðisráðherra til að koma með reglugerð kannski daginn eftir að við afgreiðum fjárlög, kannski aðeins fyrr, en þá í hljóði þannig að við vitum ekki af henni, eins og í fyrra með sjúklingakomugjöldin og af ýmsum hjálpartækjum og fleiru en það voru stórhækkanir sem við vissum ekki um fyrr en eftir að þær komu inn?

Að S-merktu lyfjunum. Er það alveg kýrskýrt og getur fjármálaráðherra sagt það í ræðustól að hér sé ekki verið að búa til aðferðafræði til þess að láta sjúklinga, og ég ítreka sérstaklega dæmið sem ég tók áðan um krabbameinssjúklinga, sem eru á göngudeildum og koma þangað til að fá krabbameinslyf taka meiri þátt í kostnaði? Eins og ég sagði þá skemmdi það gleði manns við að hlusta á hina frábæru flutningsmenn, tónleikafólkið, á tónleikunum í gær að sjá þær glærur sem ég vitnaði til í byrjun þar sem þátttaka sjúklinga er eins mikil og raun ber vitni og samanborið við önnur lönd og nágrannalönd þar sem hún er engin. Getum við ekki verið sammála um það, ég og hæstv. fjármálaráðherra, að þessi kostnaður sjúklinga verður að minnka? Það er kannski eitt brýnasta verkefnið að lagfæra þetta vegna þess að þetta er smánarblettur á (Forseti hringir.) þjóðfélagi okkar.