144. löggjafarþing — 9. fundur,  22. sept. 2014.

samgöngumál á Vestfjörðum.

[16:12]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég er mjög ánægð með það hversu mikið þetta mál er rætt hér í þinginu þessa dagana og vil þakka hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur fyrir að hefja máls á þessu í dag. Þegar enn ein neitunin kemur fram í þessu máli er bara hægt að lýsa því sem vonbrigðum því að við vitum að fara þarf í vegaframkvæmdir á þessu svæði, hvort sem það verður á þessum umdeilda stað eður ei. Krafan er um að það komi láglendisvegur á snjóléttara svæði sem fer ekki fram úr hófi í kostnaði og uppfyllir það hlutverk að koma á góðu sambandi við byggðirnar vestra til að bæta úr áralöngum samgönguvanda, auka öryggi íbúa, efla atvinnulíf og möguleika.

Það eru stundum svolítið köld rök sem er skellt framan í Vestfirðinga þegar myndin er máluð þannig að skógi vaxið land sé mikilvægt og ein helsta hindrun við framkvæmdir en á móti vegur öryggi þeirra og framtíðarmöguleikar. Það verður að fara í framkvæmdir. Það er, hefur verið og verður stefnan og þetta er ekki fyrsta leiðin sem er hafnað. Margar leiðir hafa verið skoðaðar en þær eru bæði það miklu dýrari að ekki er hægt að hugsa meira um þær eða í mikilli andstöðu við vilja heimamanna eða skipulag hreppsins.

Heimamenn hafa staðið saman og hafa ekki lokað alfarið á neinar hugmyndir sem hafa komið til skoðunar en umræðan hefur oft verið á þá leið að heimamenn eigi ekki að skipta sér þetta mikið af framkvæmdum og láta Vegagerð og aðra aðila sjá um að finna niðurstöður þó svo skipulagsvaldið liggi hjá heimamönnum að miklum hluta. Margir aðilar hafa komið að útfærslum á lausnum, endurmati, endurútreikningum o.s.frv. og staðan er sú að allir þessir aðilar þurfa að leggjast á eitt með heimamönnum og hæstv. innanríkisráðherra og finna viðunandi lausn. Og ég var mjög ánægð að heyra hæstv. innanríkisráðherra ítreka hér áðan að hún sé tilbúin að skoða það að setja sérlög til að heimila veglínu um Teigsskóg.

Herra forseti. Sunnanverðir Vestfirðir eru merkilegir fyrir að hafa ekki gefist upp á að reyna að byggja upp og halda öflugri byggð þrátt fyrir allt. En nú er komið að því að taka stóra ákvörðun í samgöngumálum fyrir Vestfjarðaveg nr. 60 og að mínu mati er ekki í boði að bíða lengur með ákvörðun um lagningu láglendisvegar um Teigsskóg. Þær ákvarðanir sem verða til þess að lausn fáist í málinu styð ég heils hugar, allt til þess gert að íbúar sunnanverðra Vestfjarða þurfi ekki lengur að búa við ferðabann á laugardögum og geti loksins farið að nýta möguleika sína til að verða enn sterkari.