144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

mat á umhverfisáhrifum.

53. mál
[14:34]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna. Mig langar að spyrja ráðherrann sérstaklega að því er varðar framkvæmdir í flokki C og þá nálgun sem kemur fram í framlögðu frumvarpi hæstv. ráðherra bæði núna og á síðasta þingi, sem lýtur að því að sveitarstjórnirnar taki sjálfar ákvörðun um það hvort framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum eða ekki. Þetta er ákvörðun sem vék frá því sem var hugsunin á fyrri stigum þegar var litið svo á að vænlegra væri að Skipulagsstofnun hefði þetta hlutverk með höndum. Sveitarfélögin höfðu gert athugasemdir við þetta í millitíðinni og mér er ljóst að ráðherrann er að nálgast þau sjónarmið sem koma fram í athugasemdum sveitarfélaganna.

Það sem er kannski eðlilegt að valdi áhyggjum í því efni er með hvaða hætti verði tryggt að jafnræði gildi að því er varðar ákvarðanir mismunandi sveitarfélaga í þessum efnum. Við vitum að sum sveitarfélög eru mjög fámenn og þarna er um að ræða yfirferð umsókna sem að áliti Skipulagsstofnunar geta numið allt að tíu tímum hjá sérfræðingi, þannig að um er að ræða verulega þekkingu sem þarf að vera fyrir hendi við sumar leyfisveitingarnar. Auðvitað er það ekki þannig með þær allar, enda kemur fram í umsögn frá ráðuneytinu sjálfu að margar þessar yfirferðir verði ekki flóknar og geti að mörgu leyti og stundum bara fallið að almennri yfirferð mála.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvernig við getum tryggt með sem bestum og skýrustum hætti jafnræði milli sveitarfélaga að því er varðar ákvörðun um mat á þeim þáttum sem falla undir C-flokk.