144. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2014.

hagnýting internetsins og réttindavernd netnotenda.

16. mál
[16:46]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Það var reyndar ekki neinni spurningu beint til mín í þessu andsvari en mig langaði aðeins að nefna eitt út af því að mér er tíðrætt um Finnland. Ég var þar nefnilega síðustu helgi og tók þátt í ráðstefnu á vegum forsætisráðuneytisins þar sem hét Open Finland. Þá sá ég hvað er að gerast þar eftir Nokia-bömmerinn. Það er eiginlega alveg stórkostlegt.

Það var ákveðið að halda þessa ráðstefnu sem gengur út á að þrýsta á og halda áfram með þá þróun að opna stjórnsýsluna í Finnlandi sem er alveg frábært. Það sem gerist þegar stjórnsýslan er opnuð á þann hátt sem þau eru að gera, eins og einmitt daginn sem ráðstefnan hófst, hún var opnuð af forsætisráðherra Finnlands, ákváðu þau að flýta áætlun um að birta fjárlögin á eins opinn hátt og mögulegt var með allar bakgrunnsupplýsingarnar, sem oft reynist svolítið erfitt að fá hér, meira að segja fyrir þingmenn, þá geta alls konar fyrirtæki og samtök tekið þessar upplýsingar þegar þær eru aðgengilegar í opinni stjórnsýslu, þá erum við að tala um öll gögnin sem þarf, og búið til alls konar hagnýtar leiðir til að nýta þessi gögn eða skemmta sér með þau hjá litlum fyrirtækjum sem búa til alls konar öpp og dót.

Við erum að sigla inn í tíma sem við getum annaðhvort nýtt okkur til hámarks og til þess að gera samfélag okkar betra eða við hreinlega missum af lestinni. Ég skora á þingheim að láta okkur ekki missa af lestinni því að tækifærið er enn til staðar.