144. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2014.

jafnt aðgengi að internetinu.

28. mál
[18:10]
Horfa

Hjálmar Bogi Hafliðason (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þingmanninum fyrir. Það var bara þessi spurning aftur. Mig langar að heyra vangaveltur þingmannsins því að hún kemur úr þessum áhugaverða þingflokki sem eru Píratar. Mér finnst ég alltaf þurfa að taka það fram þegar ég kem hér í ræðustól að ég er ekki að tala í neinni kaldhæðni.

Með ábyrgð þeirra sem selja þjónustuna — mér finnst það vanta með kröfu sem ríkið ætti að gera á þá sem selja þjónustuna, mér finnst vanta einhvern pakka utan um það, þ.e. ef þú ert í þessum rekstri áttu að fylgja ákveðnu ferli; eins og þingmaðurinn sagði réttilega mun þetta gerist hraðar og hraðar og kannski enn hraðar en okkur órar fyrir. Þá vantar okkur svona umgjörð utan um þá sem bjóða og selja þessa þjónustu, ábyrgð þeirra í öllu þessu.

Mig langaði aðeins að deila þessu: Það gerðist víða í sumar, þegar bæjarhátíðir voru hringinn í kringum Ísland, að þá hrundi kerfið. Álagið var bara svo mikið. Ég get til dæmis nefnt Húsavík þar sem kerfið hrundi, það var ekki hægt að senda sms, það var ekki hægt að hringja, það var ekkert hægt að gera vegna þess að álagið var svo mikið.

Þannig að við þurfum kannski að búa til, og ég tek fram að ég fagna því að þetta komi fram, einhverja umgjörð í kringum það að áður en þetta gerist víða þarf margt annað að eiga sér stað líka eins og til dæmis rafmagnsöryggi og sjónvarps- og útvarpsútsendingar. Það sást núna þegar eldgosið varð, þá brást það, menn gátu ekki sent sms á alla hópa, menn gátu ekki notað internetið og ekki notað sjónvarpið. Þannig að mér finnst við jafnvel þurfa að fara dýpra í þetta mál en gert er hér.