144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[13:56]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ástæða þess að ég skautaði létt fram hjá þessu er að við hv. þingmaður áttum orðastað um það fyrr í umræðunni. Þetta snýst um að það er ekki bara hækkun á neðra þrepinu heldur er einnig lækkun á efra þrepinu þar sem almenna raforkunotkunin kemur inn í. Þar er samspil milli hækkunar og lækkunar og áhrifin af því samspili og þessum breytingum þarf að skoða. Ég tók það fram í framsögu minni að þetta er flókið samspil. Þegar maður hreyfir við einni stærð, við einni tölu í þessu kerfi, eins og hv. þingmaður sem hefur gegnt því embætti sem ég gegni núna þekkir, fer jafnan af stað.

Almenna prinsippið í þessu og ástæða þess að ég legg þetta frumvarp fram er sú að ég vil jafna kostnað við dreifingu raforku milli notenda í kerfinu. Þegar virðisaukaskattsfrumvarpið kom fram leituðum við eftir upplýsingum um samspilið við þær breytingar. Við þurfum að vinna það betur, ég viðurkenni það og segi það alveg skýrt. Þess vegna hvet ég nefndina til að gera það.

Pólitísk áhersla mín er að þetta verði jafnað. Ég vona svo sannarlega að við getum fundið leiðir til að tryggja að það gerist ekki sem hv. þingmaður hefur áhyggjur af, og ég deili þeim áhyggjum, að breytingin á virðisaukaskattskerfinu verði til þess að éta þessi áhrif upp. Ég treysti því að í sameiningu finnum við leiðir til þess að svo verði ekki.