144. löggjafarþing — 14. fundur,  6. okt. 2014.

uppsagnir og fæðingarorlof.

174. mál
[17:41]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir hefur beint til mín þremur spurningum varðandi uppsagnir og fæðingarorlof.

„1. Telur ráðherra að framkvæmd 29. og 30. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, um starfsöryggi fólks sem er í fæðingarorlofi eða á leið í fæðingarorlof, sé í réttu horfi?

2. Liggja fyrir upplýsingar um hversu mörgum einstaklingum sem eru í fæðingarorlofi eða á leið í fæðingarorlof hefur verið sagt upp störfum þrátt fyrir áðurnefnd lagaákvæði?

3. Ef vinnuveitandi segir starfsmanni í fæðingarorlofi upp í nafni hagræðingar, hversu vel er fylgst með því að uppsögnin skili raunverulega hagræðingu?“

Hvað snýr að lagaákvæðinu sjálfu, eins og hv. þingmaður fór í gegnum, kveður fyrra ákvæðið á um að ráðningarsamband skuli haldast óbreytt í fæðingar- og foreldraorlofi. Síðara ákvæðið kveður á um að óheimilt sé að segja starfsmanni upp störfum vegna þess að hann hafi tilkynnt um fyrirhugaða töku fæðingar- eða foreldraorlofs eða sé í slíku orlofi nema gildar ástæður séu fyrir hendi og skal þá skriflegur rökstuðningur vinnuveitanda fylgja uppsögninni.

Í athugasemdum með þessu ákvæði í frumvarpinu voru tekin af öll þessi tvímæli varðandi rétt starfsmanns til að hverfa aftur að starfi sínu að loknu fæðingar- og foreldraorlofi. Það felst hins vegar ekki í þessum lögum að það sé einhver takmörkun á réttindum fyrirtækis eða stofnunar til að gera almennar rekstrarlegar breytingar sem kunna að hafa áhrif á stöðu starfsmannsins á svipaðan hátt og þær hafi áhrif á störf annarra starfsmanna. Ákveði vinnuveitandi að segja upp starfsmanni sem svo er ástatt fyrir ber honum að tilgreina ástæður fyrir uppsögninni og rökstyðja þær skriflega. Talið var nauðsynlegt að hafa þetta ákvæði til að það næði fram tilgangi sínum og koma í veg fyrir að það hefði neikvæðar afleiðingar fyrir starfsmann að nýta sér rétt sinn til fæðingarorlofs samkvæmt lögunum. Ég tek algjörlega undir þau sjónarmið sem komu fram í máli þingmannsins. Lögin virðast því vera þannig úr garði gerð að þau ættu að geta þjónað vel þeim tilgangi.

Síðan varðandi eftirlitið og hversu mörgum hefur verið sagt upp störfum. Það er ekki þannig að ráðuneytið hafi eftirlit með framkvæmd þessara ákvæða. Þarna er um að ræða almennt ákvæði til verndar launafólki og verður að ætla að það sé frekar hlutverk stéttarfélaga að gæta þess að félagsmenn þeirra njóti þeirra réttinda er lög og kjarasamningar bjóða, enda eru það þau sem aðstoða og veita félagsmönnum sínum aðstoð sem telja á sér brotið á vinnumarkaði. Síðan er í lögunum tryggt að foreldrar sem telja að verið sé að brjóta á þeim samkvæmt þessum ákvæðum geti leitað til kærunefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála án atbeina stjórnvalda og eftir atvikum borið mál sín undir almenna dómstóla.

Við erum því ekki með neinar opinberar tölur um það hversu mörgum verðandi foreldrum hefur verið sagt upp störfum vegna þeirrar ástæðu að þeir hafi tilkynnt vinnuveitanda sínum um fyrirhugaða töku fæðingar- eða foreldraorlofs. Hins vegar samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið frá kærunefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála voru kveðnir upp úrskurðir í fjórum málum á árabilinu 2004–2006 og auk þess í einu máli á árinu 2012 þar sem einstaklingar höfðu leitað til nefndarinnar vegna ætlaðra brota á umræddum ákvæðum laganna. Þá er mér einnig kunnugt um að slík mál hafi komið til kasta dómstóla en þau virðast ekki vera mörg.

Hvað varðar þriðju spurninguna, eins og ég sagði áður gera lögin ekki ráð fyrir að stjórnvöld hafi eftirlit með framkvæmd þeirra ákvæða sem við erum að ræða þannig að það á jafnt við hvort sem hlutaðeigandi starfsmaður er í fæðingarorlofi eða ekki þegar til uppsagnar kemur. Það er því ekki þetta eftirlitshlutverk sem snýr að vinnumarkaðnum. Þá kemur aftur að hlutverki stéttarfélaganna. Hlutverk þeirra er mjög mikilvægt við að aðstoða félagsmenn sína sem telja á sér brotið á vinnumarkaði. Mér finnst mjög eðlilegt að hafi foreldri grun um að fyrirhuguð hagræðing hafi einungis verið yfirskin uppsagnar og hin raunverulega ástæða sé sú að fyrirhugað sé að taka af fæðingar- eða foreldraorlof þá leiti viðkomandi til stéttarfélags síns um ráðgjöf og aðstoð til að kanna mál sitt frekar gagnvart vinnuveitendum. Ég held að það sé eitthvað sem við getum sagt og verið örugglega sammála um, ég og hv. þingmaður, að það skiptir okkur verulega miklu máli hvað við erum með öflug stéttarfélög á Íslandi sem virkilega hafa alla burði til þess að bakka upp félagsmenn sína gagnvart atvinnurekendum.