144. löggjafarþing — 15. fundur,  7. okt. 2014.

umboðsmaður skuldara.

159. mál
[15:11]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um umboðsmann skuldara, nr. 100/2010. Hér er verið að leggja fram frumvarpið í annað sinn en það var áður lagt fram á 143. löggjafarþingi án þess að fjallað hafi verið um það efnislega á því þingi. Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um umboðsmann skuldara og var frumvarpið samið í samráði við umboðsmann skuldara. Samtökum fjármálafyrirtækja var einnig gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við frumvarpið og var tekið tillit til þeirra eftir því sem unnt var.

Við samningu frumvarpsins var höfð hliðsjón af ákvæðum um dagsektir í öðrum lögum og reglugerðum. Samkvæmt lögum um umboðsmann skuldara getur umboðsmaður krafið stjórnvöld, fyrirtæki og samtök um allar þær upplýsingar sem hann telur nauðsynlegar til að hann geti sinnt hlutverki sínu lögum samkvæmt. Samkvæmt gildandi lögum hefur umboðsmaður skuldara ekki úrræði til að knýja upplýsingaskyldan aðila til að afhenda þær upplýsingar sem hann hefur óskað eftir þrátt fyrir ótvíræða lagaskyldu til að afhenda upplýsingarnar. Þykir þó mikilvægt að umboðsmaður skuldara hafi heimild til að beita viðurlögum þegar ekki er orðið við beiðni um upplýsingar. Í frumvarpinu er því lagt til að sé ekki orðið við beiðni umboðsmanns skuldara um upplýsingar samkvæmt lögum um umboðsmann skuldara innan hæfilegs frests geti hann ákveðið að viðkomandi aðili skuli greiða dagsektir þar til umboðsmaður telur að upplýsingaskyldan sé uppfyllt.

Þannig er markmið frumvarpsins að gera umboðsmanni skuldara kleift að sinna þeim verkefnum sem grundvallast á upplýsingagjöf frá stjórnvöldum, fyrirtækjum eða samtökum með skilvirkari hætti en áður, skuldurum til hagsbóta. Hins vegar er í ákvæðum frumvarpsins lögð rík áhersla á að umboðsmaður skuldara leitist áfram við að afla upplýsinga í samvinnu við upplýsingaskyldan aðila enda er gengið út frá því að beiting viðurlaga sé ávallt síðasta úrræðið sem gripið er til í þessu sambandi. Þá vil ég líka leggja áherslu á að umboðsmanni skuldara er einungis heimilt að óska eftir upplýsingum sem eru nauðsynlegar til að hann geti sinnt hlutverki sínu lögum samkvæmt.

Í frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að gerð verði breyting á 2. mgr. 3. gr. laga um umboðsmann skuldara í þeim tilgangi að gera umboðsmanni skuldara kleift að afla upplýsinga sem almennt varða hagsmuni skuldara og eru nauðsynlegar til þess að umboðsmaður skuldara geti sinnt því hlutverki sem honum er falið með f-lið 2. mgr. 1. laga um umboðsmann skuldara þar sem fram kemur að hann skuli gæta hagsmuna skuldara og veita þeim aðstoð þegar við á. Er því lagt til að orðalagi ákvæðisins verði breytt þannig að ekki fari á milli mála að krafa um samþykki skuldara fyrir vinnslu upplýsinga eigi einungis við um persónuupplýsingar um tiltekinn skuldara en ekki um almennar upplýsingar frá upplýsingaskyldum aðilum sem ekki tengjast tilteknum skuldurum.

Í öðru lagi er lagt til að umboðsmanni skuldara verði heimilt að leggja á dagsektir. Í frumvarpinu er lagt til að aðila sem ákvörðun um dagsektir beinist að skuli veittur 14 daga frestur til að koma að skriflegum athugasemdum áður en ákvörðun er tekin. Talið er hæfilegt að fresturinn sé 14 dagar með hliðsjón af því að hafi umboðsmaður skuldara ákveðið að nýta heimild til að leggja á dagsektir eru allar líkur á að óhæfilega langur tími hafi liðið frá því að beiðni um upplýsingar var send án þess að upplýsingarnar hafi verið afhentar eða beiðni um upplýsingar hafi verið hafnað. Enn fremur er lagt til að ákvörðun umboðsmanns skuldara um dagsektir verði tilkynnt bréflega á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að og er eðlilegt að ákvörðunin sé send samdægurs með ábyrgðarpósti. Þá er lagt til að dagsektir falli á hvern dag frá og með fyrsta virka degi frá því að aðila er tilkynnt um ákvörðun þar til upplýsingaskyldu er sinnt og þær falli niður þegar umboðsmaður skuldara telur að upplýsingaskyldan sé uppfyllt. Rétt þykir að mat á því hvort upplýsingaskyldan sé uppfyllt liggi hjá umboðsmanni skuldara en annars er hætt við að álagning dagsekta þjóni ekki tilgangi sínum.

Að því er varðar ákvörðun fjárhæða dagsekta er lagt til að þær geti numið frá 10 þús. kr. til 1 millj. kr. fyrir hvern dag. Fjárhæðirnar eru þær sömu og fjárhæðir dagsekta sem Fjármálaeftirlitið hefur heimild til að leggja á eftirlitsskyldan aðila samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Lagt er til að við ákvörðun fjárhæðar dagsekta skuli umboðsmaður skuldara m.a. líta til fjölda starfsmanna viðkomandi aðila og hversu umsvifamikill viðkomandi atvinnurekstur er og er þannig tekið mið af stærð viðkomandi aðila og að dagsektirnar eiga að skipta máli í rekstri hans.

Í frumvarpinu er lagt til að sé ákvörðun umboðsmanns skuldara um dagsektir kærð til ráðherra verði ekki heimilt að innheimta dagsektir fyrr en ráðherra hefur úrskurðað í málinu. Gert er ráð fyrir að dagsektir leggist ekki á meðan kæra er til meðferðar hjá ráðherra en staðfesti hann ákvörðun umboðsmanns skuldara er lagt til að dagsektir haldi áfram að leggjast á frá og með fyrsta virka degi frá því að ráðherra úrskurðar í málinu.

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið hefur þetta frumvarp að geyma mikilvægar breytingar á lögum um umboðsmann skuldara. Umboðsmaður skuldara mun fá tæki sem hann getur beitt í þeim tilgangi að sinna lögbundnu hlutverki sínu með skilvirkari hætti og hlýtur það að teljast til hagsbóta fyrir skuldara. Þó er að sjálfsögðu mikilvægt og lögð á það rík áhersla í frumvarpinu að umboðsmaður skuldara muni ávallt reyna eftir fremsta megni að afla upplýsinga í samvinnu við upplýsingaskylda aðila og beita heimild til álagningar dagsekta aðeins sem þrautaúrræði.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar.