144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

samkeppni í mjólkuriðnaði.

[11:47]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka áhugaverða umræðu. Mér fannst til dæmis áhugavert að heyra jafnaðarhugsjóninni beitt til réttlætingar á einokun á markaði. Ég velti fyrir mér hvort sú röksemdafærsla gildi þá ekki á öllum sviðum samfélagsins og væri fróðlegt að skoða þá heimsmynd sem þá blasti við.

Einnig fannst mér forvitnilegt og athyglisvert að heyra yfirlýsingar frá hæstv. ráðherra. Ég fagna því að það eigi að endurskoða kerfið og að það eigi að setja á fót þessa þverpólitísku nefnd. Það er viðleitni til staðar og ég fagna því.

Eftirfarandi fullyrðing fannst mér áhugaverð: Allar afurðastöðvar geta nýtt sé undanþágur frá samkeppnislögum.

Þetta hljómar flott, en hver er veruleikinn? Eru ekki afurðastöðvarnar tvær? Og þær eru í samstarfi. Í hugann koma fleyg orð: Þar sem eru tvö tré, þar er skógur.

Afurðastöðvarnar eru Auðhumla og Kaupfélag Skagfirðinga. Þetta er umhverfið, þetta eru þessar „allar afurðastöðvar“ sem geta nýtt sér undanþágurnar.

Hvað er Mjólkursamsalan? Mjólkursamsalan er úrvinnsluaðili í eigu Auðhumlu og Kaupfélags Skagfirðinga. Þegar hráefnið er komið til Mjólkursamsölunnar er það búið að fara í gegnum afurðastöðvarnar — sem eru Auðhumla og KS. Mjólkin hjá Mjólkursamsölunni er bara orðin eins og hver önnur iðnaðarvara og á því stigi framleiðslunnar á auðvitað að ríkja samkeppni. Úrvinnsluaðilarnir eiga að vera í virkri samkeppni sín á milli um það að framleiða vörur í nýsköpun, um það að kaupa hráefnið af bændum á góðu verði. Þannig á þetta fyrirkomulag að vera.

MS sem úrvinnsluaðili hagar sér einfaldlega (Forseti hringir.) þannig að það er eitthvert átakanlegasta dæmið um markaðsmisnotkun sem um getur (Forseti hringir.) í samfélaginu. Það er það sem þarf að stöðva, þetta (Forseti hringir.) ofríki hins stóra gegn hinum smáa á úrvinnslustiginu (Forseti hringir.) í landbúnaðarframleiðslu.