144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[12:47]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að benda á að alþjóðlegar rannsóknir hafa sýnt fram á að vandamálið á heimsvísu þegar kemur að fjölda tapaðra lífára varðandi áfengisneyslu er um það bil jafnstórt og viðkemur töpuðum lífárum vegna tóbaksneyslu. Þó að það sé ótrúlegt þá er staðan sú. Og ein besta aðferðin til að stemma stigu við notkun áfengis er að takmarka sölu þess við ákveðna staði með svipuðu eftirliti og við gerum í dag á Íslandi.

Mig langar að spyrja hv. þm. Pál Val Björnsson hvort hann sé ekki sammála því að til þess að vinna sem best að forvörnum sé mjög mikilvægt að hafa áfengi ekki fyrir augum okkar í verslunum landsins, meðal annars upp á börnin okkar, forvarnagildið fyrir þau.