144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[12:48]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur fyrir spurninguna. Jú, ég er algjörlega sammála henni í því. Mér finnst svolítið vandræðalegt að standa hér og tala um þetta vegna þess að ég var búinn að segja að ég væri eiginlega fylgjandi þessu. En eftir að hafa grandskoðað þetta mál miklu betur, skoðað það í tvo mánuði, hef ég komist að þeirri niðurstöðu að ég verð eiginlega að biðjast afsökunar á því, alla þá sem haft lagt sig fram við að reyna að hjálpa fólki sem á í þessum vandræðum.

Ég hef miklar mætur á mönnum eins og Þórarni Tyrfingssyni og Sigurði Gunnsteinssyni, sem hafa starfað í 40 ár við þessi mál á Íslandi. Þeirra sýn er alveg skýr, að við eigum ekki að auka aðgengi að áfengi. Og það er alveg ljóst að ef áfengi fer í matvörubúðir sjá börnin miklu meira af því. Nóg er nú samt á Íslandi. Við erum allt of fá til að vera að missa fleiri hundruð manns á hverju einasta ári af völdum áfengis- og tóbaksneyslu.