144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:58]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni — og ég þakka þessa umræðu — að það skiptir gríðarlegu máli að við séum nokkurn veginn að tala um sama hlutinn þegar við fjöllum um verkefnið í heild sinni. Það má alveg halda því fram að rammaáætlun 1 hafi verið fyrsta próf, menn voru að prófa sig aðeins áfram, og rammaáætlun 2 hafi síðan sett verkefnið í ákveðinn farveg. Við þekkjum síðan umræðuna um það hvernig þeirri vinnu lauk og hvar hið pólitíska mat á hlutum kemur fram og hvort allir hlutir séu metnir með sama hlutlæga kvarðanum í vinnu faghópanna. Þetta er umræða sem verður sjálfsagt viðvarandi og ég lít svo á að við séum smátt og smátt að verða betur og betur í stakk búin til að takast á við þetta gríðarlega mikla verkefni þar sem markmiðið er að við séum að búa til verkfæri sem noti fagleg vinnubrögð, hlutlæga mælikvarða, til að meta ólíka kosti með tilliti til nýtingar eða verndunar; og hvaða þætti þurfi síðan að rannsaka betur og þá hvaða kröfur við setjum til slíkra verkefna og rannsókna.

Það má alveg hugsa sér að hægt sé að setja fram óendanlegar óskir um rannsóknir eða verkferla sem þyrfti að fara í áður en menn geta tekið svarið, en þetta er jú fyrst og fremst samanburður á verkefnum og endar ekki, alla vega ekki í tilfellinu þegar kostir fara í nýtingarflokk, endilega í virkjunarframkvæmdum því að þá eru ýmsir þættir órannsakaðir sem eiga eftir að fara í umhverfismat o.fl. (Forseti hringir.) Ég á við það að í þessu ferli verðum við að skilja á milli þess (Forseti hringir.) að fara í umhverfismat og að flokka kosti í þessa ólíku flokka.