144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:25]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er rétt að þakka hæstv. forseta fyrir ágæta fundarstjórn en um leið að taka undir þær skynsamlegu ábendingar sem hér hafa komið fram um meðferð málsins og eðlilega festu í því hvernig farið er með mál í þinginu. Þessi tiltekna virkjun fór í nánari skoðun vegna ákveðinna þátta sem lúta að umhverfismálum, að laxi í Þjórsá sem óvefengjanlega er umhverfismál og spurninga sem vöknuðu í tengslum við það og eðlilegt að málið gangi til þeirrar nefndar.

Ég kalla eftir því, virðulegi forseti, að heyra frá formanni umhverfis- og samgöngunefndar, hvort hann sé því ekki sammála, Höskuldur Þór Þórhallsson, að málið eigi þar erindi því að við höfum heyrt frá einum af forustumönnum atvinnuveganefndar, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, að hún telji málið ekki eiga erindi í atvinnuveganefndina. Ég treysti því að ráðherrann treysti Höskuldi Þór Þórhallssyni, formanni umhverfis- og samgöngunefndar, fyllilega fyrir meðferð málsins. Það væri gott ef ráðherrann staðfesti það og lýsti því yfir að það væri í höndum þingsins til hvorrar nefndarinnar málið gengi, að hann treysti báðum nefndunum jafn vel fyrir málinu.