144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

störf þingsins.

[15:20]
Horfa

Sigrún Magnúsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er tekið sterkt til orða um nauðsyn á varðveislu menningar- og atvinnusögulegra minja. Þjóðmenning og menningararfur er áskorun til hverrar kynslóðar um að viðhalda sameiginlegum orðstír áfram til næstu kynslóðar og hluti af þeirri verndun menningarminja er ekki síst það sem snýr að menningarlandslagi byggða og borga.

Það gladdi mig því mikið að lesa í Morgunblaðinu í gær um samþykkt tillögu í menningar- og ferðamálaráði Reykjavíkur um skipun starfshóps varðandi varðveislu og endurgerð grásleppuskúranna við Ægisíðu. Á að gera það í samvinnu við Borgarsögusafnið og umhverfis- og skipulagssvið. Hluti af Borgarsögusafninu er Sjóminjasafnið úti á Granda. Mikill áhugi var fyrir einum átta eða níu árum síðan á að endurreisa þessar sjóminjar við Ægisíðu. Einnig var umræða þá um að tengja þær við sambærilegar minjar á Seltjarnarnesi, Bygggarðavörina.

Skúrarnir í Grímsstaðavörinni eru minjar um smábátaútgerð borgarinnar og grásleppuútgerð, en hvað lengst var róið úr Grímsstaðavörinni.

Fleiri minjar um smábátaútgerð er að finna á þessari fallegu strandlengju borgarinnar, t.d. hjallur sem eigendur gáfu Sjóminjasafninu til varðveislu fyrir nokkrum árum.

Vonandi verður vandað vel til verka eins og gert var á Seltjarnarnesi varðandi sögu Bygggarðavararinnar og fornleifa á því svæði. Þetta er kjörið tækifæri fyrir fyrirtæki eða stofnanir í menningartengdri ferðaþjónustu til að efna til gönguferða meðfram ströndinni og segja frá og sýna minjar um byggða- og atvinnusögu undangenginna kynslóða hér í Reykjavík.