144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég beini máli mínu til hv. formanns efnahags- og viðskiptanefndar, Frosta Sigurjónssonar. Framsóknarflokkurinn gekk til kosninga og lofaði afnámi verðtryggingar. Hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Frosti Sigurjónsson, sagði, eftir að nefnd forsætisráðherra um afnám verðtrygginga skilaði skýrslu sinni, að veigamikil rök væru fyrir því að afnema verðtryggingu nýrra lána strax og tók þar með undir sérálit Vilhjálms Birgissonar við skýrsluna sem fól meðal annars í sér afnám verðtryggingar af nýjum neytendalánum strax.

Seðlabankinn gaf út rit sitt um fjármálastöðugleika í síðustu viku. Þar segir bankinn að ákjósanleg staða sé nú uppi til að stíga stór skref í losun hafta. Ekki liggur ljóst fyrir hvort eitthvað slíkt er í vændum en afnám hafta mun valda gengislækkun og munur á aflandsgengi og gengi Seðlabankans er nú 17%. Fyrirséð er að það muni valda verðbólgu og gengislækkun og þar með hækkun verðtryggðra lána ef gjaldeyrishöftin verða afnumin.

Annað sem kemur fram í ritinu er ekki síður fréttnæmt en það er að gengið muni lækka um 8% ef ekki verður samið um lengingu á Landsbankabréfinu. Mig langar því að spyrja hv. þingmann eftirfarandi spurninga:

1. Hvenær ætlar ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar að leggja til afnám verðtryggingar?

2. Óttast formaður efnahags- og viðskiptanefndar ekki að afnám gjaldeyrishafta muni valda því að lækkun á höfuðstóli verðtryggðra lána verði að engu vegna verðbólgu í kjölfar gengislækkunar ef Framsóknarflokkurinn efnir ekki kosningaloforð sitt um afnám verðtryggingar samtímis?

3. Vill hann að lengt verði í Landsbankabréfinu eða eru aðrir hagsmunir en hagsmunir heimilanna sterkari í þessum efnum?