144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

takmarkað aðgengi að framhaldsskólum.

[15:49]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hjá sveitarstjórnarmönnum í nýliðinni kjördæmaviku komu fram gífurlegar áhyggjur vegna mikils niðurskurðar til framhaldsskólanna og stöðunnar í skólunum og framtíðarhorfa almennt vegna þeirrar stefnu sem menntamálaráðherra boðar. Ég spyr: Hvers vegna á víkja frá þeirri stefnu sem gengið hefur vel og fjársvelta skólana? Framhaldsskólar víða um land hafa unnið vel saman og fjarnámið og dreifnámið hefur virkað mjög vel. Það hefur verið yfirlýst stefna að framhaldsskólanir séu fyrir alla. Það má ekki gerast að það mikla uppbyggingarstarf sem orðið hefur í framhaldsskólunum verði eyðilagt.

Nýlegar varð t.d. Fjölbrautaskóli Snæfellinga tíu ára. Hann hefur gjörbreytt stöðu þess svæðis, styrkt byggðina og aukið menntunarstig fólks á öllum aldri og dregið úr hættu á brottfalli nemenda á svæðinu. Hvað gengur mönnum til með því að ætla að útiloka aðgengi nemenda eldri en 25 ára frá framhaldsskólanámi? Hvað er fengið með því annað en aukinn kostnaður fyrir nemendur og samfélagið? Og er ætlunin að vera með tvö framhaldsskólastig? Það er ekki hagkvæmt. Það á að nýta aðstöðu framhaldsskólanna, sérstaklega á landsbyggðinni þar sem öll aðstaða er til staðar. Til dæmis eru nú í námi í Menntaskólanum á Ísafirði 40 skipstjórnarnemendur sem voru að hefja þar nám. Þetta eru fullorðnir menn. Það væri ekki heimilt áfram miðað við núverandi stefnu. (Gripið fram í: Rangt.)

Sá mikli niðurskurður sem beinist að fjarnámi og starfs- og verknámi og að útiloka nemendur eldri en 25 ára frá framhaldsskólum gengur þvert á fyrirheit ráðamanna um að efla starfs- og verkmenntun. Möguleikar fólks á vinnumarkaði og fólks með litla formlega menntun á að sækja nám í framhaldsskólum er því gífurlega skert.

Einn gamalreyndur sveitarstjórnarmaður hafði það á orði í nýliðinni kjördæmaviku að ef ekki yrði snúið af þessari niðurrifsbraut yrði þar héraðsbrestur. Og það verður ekki bara héraðsbrestur, heldur er verið að rífa niður uppbyggingu skólastarfs (Forseti hringir.) í landinu til margra ára.