144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:24]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég held að þeir sem hlusta á þetta geti velt fyrir sér hvort það skipti öllu máli fyrir málið í hvaða hv. þingnefnd það fer. Menn tala eins og hér hafi verið gríðarlega mikil sátt um vinnubrögð fram til þessa og að nú sé verið að rjúfa þá sátt. Vilja menn rifja upp hvernig umræðan hefur verið í þinginu um rammaáætlun sem svo sannarlega átti að vera vegferð og rammi til þess að ná sátt? Það náðist ekki. Þar frá er langur vegur. Vonandi ná menn sátt í þessu máli, en það snýst ekki um það í hvaða hv. þingnefnd málið er. Vonandi komumst við á þann stað að við förum að ræða efnislega um málið því að um það snýst það. Síðasta ríkisstjórn tók þetta úr atvinnuveganefnd og setti þetta í aðra nefnd.

Virðulegi forseti. Ef menn eru í alvöru að hugsa um verndarsjónarmið og annað slíkt ættu þeir að taka umræðuna og málefnið út frá þeim forsendum en ekki endalaust að karpa um það í hvaða nefnd þetta er. Er ekki ágætisfólk í hv. atvinnuveganefnd? (Forseti hringir.) Ég hélt það, úr öllum flokkum.