144. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:25]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér falla að venju nokkuð stór orð þegar deilt er á Alþingi. Í þingsköpum er fjallað í 13. gr. um verkefni nefnda. Þar segir um atvinnuveganefnd:

„Nefndin fjallar um sjávarútvegsmál, landbúnaðarmál, iðnaðar- og orkumál, nýsköpun og tækniþróun, atvinnumál almennt og einnig nýtingu auðlinda á grundvelli rannsókna og ráðgjafar.“

Um umhverfis- og samgöngunefnd:

„Nefndin fjallar um umhverfismál, skipulags- og byggingarmál og rannsóknir, ráðgjöf, verndun og sjálfbærni á sviði auðlindamála almennt. Enn fremur fjallar nefndin um samgöngumál, þ.m.t. framkvæmdaáætlanir, byggðamál svo og málefni sveitarstjórnarstigsins og verkaskiptingu þess og ríkisins.“

Augljóst er að það er vilji að um málið sé fjallað í báðum nefndum.

Í þessu máli er fyrst og fremst verið að tiltaka átta kosti sem voru til skoðunar, einn var síðan færður í nýtingarflokk úr biðflokki. Það er ekki verið að færa neinn í verndarflokk. Á grundvelli þess er að mínu mati eðlilegt að málið hljóti umfjöllun í atvinnuveganefnd. Jafnframt tel ég nauðsynlegt að fá álit og umsögn umhverfis- og samgöngunefndar. Ég treysti báðum nefndunum, formönnum þeirra og öllum fulltrúum í meiri hluta og minni hluta (Forseti hringir.) fyrir að vinna mjög skynsamlega (Forseti hringir.) að því verki.