144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

staða barnaverndar í landinu.

[17:25]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur fyrir að hefja máls á þessu mikilvæga máli.

Ég veit varla hvar ég á að byrja. Ég þarf ekki að predika yfir þeim þingmönnum sem hér eru staddir að barnaverndarmál skipta okkur mestu máli, held ég, í samfélaginu. Ekki geta börnin sjálf borið hönd fyrir höfuð sér þegar þau eru beitt ofbeldi eða þeim er ekki sinnt á einhvern máta. Við eigum ýmis falleg lög, barnaverndarlög, og erum aðilar að fallegum sáttmálum eins og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þar sem fögur fyrirheit eru gefin og það er alveg ömurlegt til þess að hugsa að við skulum ekki standa okkur nægilega vel í að framfylgja alltaf þeim lögum og þeim sáttmálum sem við höfum gengist undir.

Auðvitað eru allir af vilja gerðir og ég fagna því að hæstv. ráðherra vilji beita sér fyrir því að gera þjónustuferlið, ef maður getur sagt sem svo, heildstæðara og vil þá spyrja hana hvað hún sjái fyrir sér í þeim efnum, hvernig heilbrigðiskerfið, sveitarfélögin, skólarnir, Barnaverndarstofa og umboðsmaður barna, svo fáir séu nefndir, eiga að vinna betur saman. Kannski hún reifi aðeins hvernig það hefur misfarist og eins og ég segi hvað hún sjái fyrir sér að hægt sé að gera í þeim efnum.