144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

fjármögnun byggingar nýs Landspítala.

25. mál
[18:05]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þó að flokkarnir kunni að hafa talað skýrt fyrir kosningar varð staðreyndin eigi að síður sú að þegar við komum til þings þegar þeim sleppti þá var því lýst yfir af einum þeirra þriggja ráðherra sem mestu ráða í þessu máli að örvænt væri um að það tækist að samþykkja að byrja bygginguna á þessu kjörtímabili. Því hefur umræðan breytt.

Svarið við því af hverju þessa tillögu kunni að þurfa til þess að hægt sé að hefja ferðalagið fólst í ræðu hv. þingmanns áðan. Þá sagði hún réttilega undir lok ræðu sinnar að það væri ágreiningur um leiðir millum hæstv. fjármálaráðherra og forsætisráðherra. Ég hygg að svo sé. Við slíkar aðstæður er ekkert óeðlilegt að nefnd þingmanna úr öllum flokkum leggi saman höfuð til þess að reyna að finna heppilegar leiðir til þess að fjármagna verkið, áfangaskipta því líka og leysa eftir atvikum önnur álitamál. Ég hef alltaf talið það heppilegustu leiðina.

Ég var árum saman á Alþingi sem laut gjörsamlega boðvaldi framkvæmdarvaldsins. Hingað komu inn ár eftir ár fyrirskipanir frá framkvæmdarvaldinu í formi frumvarpa og þingsályktunartillagna sem lá alveg ljóst fyrir að þingmenn stjórnarflokkanna höfðu ekkert svigrúm til þess að víkja frá. Það er sem betur fer að breytast. Það er einn af lærdómunum sem við höfum dregið af þeim óskaplegu atburðum sem urðu hér í þjóðlífinu 2008. Í kjölfar skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og umræðu um hana finnst mér a.m.k. að það megi sjá þess merki að í vaxandi mæli taki þingið til sín meira sjálfstæði. Það finnst mér gott. Ég lít svo á að þessi tillaga sé til marks um það og hún sé partur af þeirri vegferð. Þess vegna er ég ánægður með þessa tillögu.