144. löggjafarþing — 26. fundur,  3. nóv. 2014.

beinagrind steypireyðar.

223. mál
[18:42]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Tilkynning hæstv. forsætisráðherra 18. október bar töluverðan keim af þeim hætti hans að koma fjármunum ríkisins út til kjördæmisins í gegnum sms-boð. Mig langar að spyrja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hvort sú tilkynning hafi komið á undan eða eftir þeim fundi sem hæstv. ráðherra átti með hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra.

Mig langar líka til að spyrja hæstv. ráðherra hvort það liggi þá fyrir að ríkisstjórnin, sem tók ákvörðun um hvar ætti að varðveita beinagrindina, muni reiða fram allt það fé sem til þarf eða er það sá sem gerir vörslusamninginn sem á að gera það?

Hitt vil ég svo segja að mér finnst það táknrænt að á sama tíma og Morgunblaðið greinir frá því að hér úti á Austurvelli séu fimm þúsund manns að mótmæla ríkisstjórninni þá heldur hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra eina af sínum allra bestu ræðum og hún fjallar um beinagrindur.